Erlent

George Lucas yfirgefur Hollywood

Leikstjórinn George Lucas hefur lýst því yfir að hann ætli ekki að framleiða aðra stórmynd. Hann ákvað þetta eftir að hafa staðið í ströngu við framleiðslu nýjustu kvikmyndar sinnar.

Nýjasta mynd Lucas kallast Red Tails og skartar þeldökkum leikurum í aðalhlutverkum. Lucas segir að leikaravalið hafi orðið til þess að kvikmyndaver í Hollywood hafi ekki viljað koma að framleiðslu kvikmyndarinnar.

Lucas hefur komið að framleiðslu margra stórmynda en frægastur er hann þó fyrir að framleiða Stjörnustríðs kvikmyndirnar. Kvikmyndir Lucas hafa halað inn mörgum milljörðum dollara.

Framleiðslukostnaður Red Tails er 58 milljónir dollara og þykir það hófleg upphæð fyrir stórmynd af þess tagi.

Lucas sagði einnig að hann hefði einfaldlega ekki áhuga á að halda áfram með sagnaheim Stjörnustríðsmyndanna. Hann segir að þær viðbætur sem hann gert við seríuna hafi oftar en ekki fallið illa í kramið hjá aðdáendum myndanna.

Hann ætlar því að snúa sér að framleiðslu tilraunamynda líkt og hann gerði á upphafsárum sínum í kvikmyndagerð.

Hægt er að sjá sýnishorn úr Red Tails hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×