Erlent

Sækir um skilnað 99 ára gamall - kom upp um 60 ára gamalt framhjáhald

Mynd tengist frétt ekki beint
Mynd tengist frétt ekki beint
Ítalskur maður hefur sótt um skilnað við eiginkonu sínu. Það er kannski ekki sérstaklega merkilegt eitt og sér en maðurinn er 99 ára gamall og konan er 96 ára og hafa þau verið gift í 77 ár.

Ástæðan fyrir skilnaðinum er sú að hann komst nýlega að því að hún hélt framhjá honum á fimmta áratug síðustu aldar. Maðurinn varð alveg brjálaður þegar hann frétti af athæfi konu sinnar og sótti strax um skilnað.

Í skilnaðarpappírum sem lagðir voru fyrir dómara í Róm á dögunum er að finna bréf frá konunni þar sem það stóð svart á hvítu að hún hefði haldið framhjá honum fyrir meira en 60 árum síðan.

Maðurinn fann bréfin nokkrum dögum fyrir jól þegar hann var að fara í gegnum skúffu af gömlum bréfum. Þegar hann spurði eiginkonu sína út í bréfin viðurkenndi hún hjúskaparbrot sitt og grátbað manninn um að fyrirgefa sér.

En sá gamli stóð fast á sínu og sagði að hjónabandinu væri lokið.

Hjónin eiga fimm börn, tólf barnabörn og eitt barnabarnabarn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×