Erlent

Wikipedia safnaði 20 milljón dollurum

Jimmy Wales, stofnandi Wikipedia.
Jimmy Wales, stofnandi Wikipedia. mynd/AFP
Árlegri fjársöfnun frjálsa alfræðiritsins Wikipedia lauk síðastliðinn sunnudag. Söfnunin gekk afar vel og er talið að um 20 milljón dollarar hafi safnast á 46 dögum. Upphæðin rennur óskipt til Wikimedia en samtökin sjá um rekstur alfræðiritsins.

Wikimedia annast rekstur Wikipedia ásamt því að sjá um rekstur tilraunaverkefna á borð við Wikisource og Wikibooks.

Söfnunin er helsta tekjulind Wikimedia og eru aðstandendur samtakanna afar sáttir með fjárframlögin.

Wikipedia, sem byggir alfarið á styrkjum og frjálsum fjárframlögum, er eitt vinsælasta uppsláttarrit veraldar. Vefsíðan hefur verið starfsrækt í 10 ár og er nú að finna rúmlega 20 milljón greinar á 280 tungumálum. Viðfangsefnin eru af öllum toga og má finna upplýsingar um allt frá Andrési Önd til Albert Einstein. Í kringum 90.000 sjálfboðaliðar sjá um að uppfæra greinarnar og bæta nýjum við.

Samkvæmt upplýsingum frá Wikimedia heimsóttu 474 milljónir einstaklingar síðuna í nóvember á síðast ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×