Erlent

Eitt versta rútuslys í Bretlandi í áratug

Frá slysinu í morgun.
Frá slysinu í morgun.
Einn lést og fjörutíu slösuðust, þar af tveir alvarlega, þegar vörubíll og rúta skullu saman á hraðbraut í miðhéruðum Englands í morgun.

Slysið varð á hraðbraut númer fimm nærri bænum Halesowen, sextán kílómetrum suðvestur af Birmingham, um hálfsjöleytið í morgun.

Einn var úrskurðaður látinn á slysstað og eru tveir taldir í lífshættu þar á meðal ökumaður flutningabílsins. Beita þurfti klippum til að ná honum út úr bifreiðinni sem og tveimur farþegum rútunnar.

Tuttugu og sjö manns voru fluttir á nærliggjandi sjúkrahús en aðrir sem slösuðust fengu aðhlynningu á slysstað. Engin börn voru að ferðast með rútunni þegar slysið varð.

Ekki er vitað hvað olli því, en svo virðist sem flutningabíllinn hafi ekið aftan á rútuna með þeim afleiðingum að hún hafnaði á steinsteypuvegg. Mikil þoka var á svæðinu þegar rútuslysið varð en það er sagt eitt það versta í sögu Bretlands í um áratug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×