Skoðun

Skipulagsdagar – sjónarmið námsmanna

Sara Björg Pétursdóttir skrifar
Eftir að hafa fylgst með umræðunni um skipulagsdaga leikskólanna undanfarna daga langar mig að vekja athygli á einu sem virðist vera að gleymast í þessari umræðu og það eru foreldrarnir sem eru sjálfir námsmenn!



Skipulagsdagar dúkka nefnilega stundum upp í miðri prófa-tíð hjá stúdentum sem eiga börn á leikskóla.



Lokapróf hefjast yfirleitt í lok apríl og standa fram í miðjan maí að undanskildum sjúkra- og upptökuprófum sem eru yfirleitt í kringum 20. maí. Þó auðvitað misjafnt eftir skólum.



Er ekki mögulegt að velja skipulagsdaga sem lenda ekki einmitt á þessum tíma ársins? Í Reykjanesbæ var skipulagsdagur mánudaginn 30. apríl, 1. maí er frídagur, svo þessi helgi var extra löng.



Mjög óheppilegt fyrir þá foreldra sem eru í prófi 30. apríl eða 2. maí!



Þann 18. maí er aftur skipulagsdagur í Reykjanesbæ sem er mjög óheppilegt fyrir þá foreldra sem færðu prófið sitt vegna skipulagsdagsins 30. apríl, voru veikir/með veik börn eða þurfa að taka prófið sitt upp.



Þetta þarf klárlega að endurskoða, því ekki búa allir svo vel að eiga ömmur og afa eða frænkur og frændur til að hlaupa undir bagga með sér og getur margt haft áhrif þar á, til dæmis búseta námsmanna fjarri fjölskyldu.



Það er eins og það gleymist hreinlega hversu margir foreldrar eru sjálfir í námi. Það þarf að vekja meiri athygli á þessu svo leikskólarnir geti komið til móts við þann stóra hóp foreldra sem er í námi og reynt að velja aðra daga en í miðri prófatíð fyrir skipulagsdaga og aðra viðburði, auðvit-að svo lengi sem það er ekki óheppilegt fyrir leikskólana.



Ég held og ég vona að langflestir foreldrar skilji þörfina fyrir skipulagsdaga og vilji jafnframt taka þátt í sem flestum viðburðum á leikskóla barna sinna.



Ég bind því vonir mínar við að hægt sé að mæta foreldrum í námi á miðri leið.




Skoðun

Sjá meira


×