Chris Bosh, einn af stjörnuleikmönnum Miami Heat, gæti misst af þriðja leik Miami Heat og New York Knicks í úrslitakeppni NBA-körfuboltans í kvöld þar sem að kona hans á von á barni á hverri stundu.
Chris Bosh flaug í einkaflugvél heim til Miami til móts við eiginkonu sína, Adrienne, eftir að hún hafði hent inn skilaboðum inn á samskiptavef. Þar stóð "Flýttu þér heim".
Miami Heat hefur ekki afskrifað Bosh í leiknum í New York í kvöld en Miami er 2-0 yfir í einvíginu. New York liðið verður án Amare Stoudemire í þessum leik eins og frægt er orðið og það gæti hjálpað Miami að komast yfir brotthvarf Bosh.
Chris Bosh skoraði 21 stig í leik tvö eftir að hafa skorað aðeins 9 stig í fyrsta leiknum. Hann var með 18,0 stig að meðaltali með Miami í deildarkeppninni í vetur.

