Innlent

Sjúklingar gagnrýna aðbúnað

SV skrifar
Sjúklingar sem hafa legið á geðdeild Landspítalans (LSH) við Hringbraut gagnrýna hversu lítill aðskilnaður er á milli ólíkra sjúklinga.

Ásta María Jensen, sem liggur nú á geðdeild í fimmta sinn, segir nauðsynlegt að skipta sjúklingum með ólíkar þarfir meira upp en nú er gert.

Hún ber starfsfólki geðdeildar vel söguna, en segir álagið hafa aukist mikið undanfarið. Of mikil athygli fari í of fáa sjúklinga vegna þess að fólki sé ekki skipt niður á deildir eftir því hversu veikt það sé.

„Ég stakk af um daginn til að fara heim til mín að sofa, einfaldlega vegna þess að ég sá að fjórar manneskjur voru að sinna fimmtán sjúklingum, þar af fimm alvarlega veikum," segir hún. „Það bitnar á sjúklingunum þegar mikið er að gera og það er engum bjóðandi, hvorki sjúklingum né starfsfólki."

Kona sem hefur legið þrisvar á geðdeild vegna alvarlegs þunglyndis segir það ómanneskjulegt að láta misveika sjúklinga deila herbergjum. Hún hefur útskrifað sjálfa sig í tvígang vegna þess að hún gat ekki staðið í frekari samskiptum við hina sjúklinga á deildinni.

Til stendur að breyta einni legudeildinni á Hringbraut í geðgjörgæsludeild fyrir allra veikustu sjúklingana til að sporna við þessari þróun. Talið er að framkvæmdirnar muni kosta um 120 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×