Erlent

Ólympíufarar fengu gulrætur og róandi sprautur

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Hestar eru eina dýrategundin sem keppir á Ólympíuleikunum.
Hestar eru eina dýrategundin sem keppir á Ólympíuleikunum. mynd/London 2012
Bandarísku Ólympíufararnir Twizzel, Mighty Nice og Arthur ferðuðust með stíl til Lundúna í síðustu viku. Þessir hreinræktuðu gæðingar munu sýna listir sínar á Ólympíuleikunum sem hefjast í borginni 27. júlí næstkomandi.

Þremenningunum hefur hlotnast sá mikli heiður að fá að taka þátt í leikunum ár en hestar eru eina dýrategundin sem keppir á leikunum.

Mikla skipulagningu þarf til að flytja þessar tilkomumiklu skepnur yfir Atlantshafið en fylgdarlið þeirra var einnig með í för.

Hestarnir hafa tekið þátt í keppnum víða um heim og það eru vafalaust margir sem horfa hýrum augum til vegabréfa þeirra enda fljúga þeir ávallt á fyrsta farrými.

Fótaplássið vantar ekki og máltíðin um borð er ekki af verri endanum — félagarnir frá urmul lífrænt ræktaðra gulróta. Taki flugið á taugarnar stendur þeim síðan til boða að fá róandi sprautu.

Þýski knapinn Hinrich Romeiker fagnar sigri á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.mynd/AP
„Markmið okkar er að koma þeim til Lundúna streitulaust," sagði Dr. Brendan Furlong, dýralæknir bandaríska reiðhópsins, í samtali við AP fréttaveituna.

Furlong segir að áhafnarmeðlimir í slíkum ferðum séu ávallt liðlegir og að sumir tengist hestunum miklum tilfinningaböndum.

En spurningin er þessi: Gera hestarnir sér grein fyrir mikilvægi Ólympíuleikanna? Tim Dutta, eigandi félagsins sem flytur hestana, hefur tröllatrú á því að það sé raunin.

„Þetta eru íþróttamenn," sagði Dutta. „Þeir skilja hlutverk sitt og þeir sannarlega elska þetta hlutverk."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×