Skoðun

Bakari hengdur fyrir smið

Róbert Hlöðversson skrifar

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) var stödd hér á landi fyrir skömmu til að fylgjast með því hvernig íslensk stjórnvöld uppfylltu kröfur EES-samningsins varðandi eftirlit með framleiðslu sjávarafurða. Í skýrslu ESA sem finna má á vef Matvælastofnunar (www.mast.is) kemur fram að stofnunin telur eftirlit með framleiðslu nsjávarafurða hér á landi ófullnægjandi. Þó að það sé ljóst að ábyrgðin á framkvæmd eftirlitsins sé alfarið í höndum Matvælastofnunar (Mast) og Heilbrigðiseftirlits sveitarfélagana (Hes) virðist ESA telja að varpa beri hluta ábyrgðarinnar á faggiltar skoðunarstofur, sem annast hafa framkvæmd eftirlitsins fyrir hönd stjórnvaldsins síðan árið 1993. Gagnrýni ESA á skoðunarstofurnar tekur aðallega til tveggja neðangreindra atriða.

Faggiltar skoðunarstofur ekki óháður eftirlitsaðili

ESA telur faggiltar skoðunarstofur ekki óháða eftirlitsaðila þar sem þær þiggja greiðslur frá eftirlitsþega fyrir þjónustu sína. Þessi afstaða ESA hefur lengi legið fyrir og byggir á vanþekkingu stofnunarinnar á faggiltri skoðunarstarfsemi. Faggildingu er fyrst og fremst ætlað að tryggja hlutleysi og hæfni skoðunaraðilans. Í þessum tilgangi er þess krafist að engin eignartengsl séu á milli skoðunarstofunnar og eftirlitsþegans. Skoðunarstofunni er skylt að vinna eftir skriflegu gæðakerfi þar sem allir verkferlar eru skilgreindir, eftirlitskerfi eru virk, hæfni starfsfólks tryggð með reglulegri endurmenntun og þjálfun auk þess sem bæði innri og ytri úttekt er gerð á starfseminni með reglubundnum hætti. Athyglisvert er að í skýrslu ESA eru einmitt gerðar alvarlegar athugasemdir við því að þessi atriði séu ekki í lagi hjá eftirlitsstjórnvöldum.

Hvað hlutleysi eftirlitsaðilans varðar er gott að skoða hvernig því er háttað hjá Hes, sem nú á að taka við hluta eftirlitsins með fiskvinnslum af skoðunarstofunum. Hes er rekið með framlagi frá sveitarfélögunum og þjónustugjöldum frá eftirlitsþegum, sem þar með greiða Hes beint fyrir sína þjónustu. Sveitarfélögin eiga og reka ýmsar stofnanir og fyrirtæki sem þeirra eigin eftirlitsaðili (Hes) hefur eftirlit með. Má þar nefna sorpbrennslustöðvar, sem nú eru í umræðunni vegna dioxiðmengunar. Hvernig ESA getur talið Hes hlutlausan eftirlitsaðila, en ekki faggiltar skoðunarstofur, hlýtur að stafa af vanþekkingu á faggildri skoðunarstarfsemi og ofurtrú á hæfni og hlutleysi opinberra eftirlitsaðila.

Skoðanir ekki tilkynntar til Mast

Ein af athugasemdum ESA er að skoðunarstofurnar tilkynni ekki skoðanir og eða annmarka til Mast og því geti stofnunin ekki gert sér fulla grein fyrir ástandi fiskvinnslufyrirtækjanna. Allar skoðunarskýrslur sem skoðunarstofurnar gera eru sendar Mast á tölvutæku formi einu sinni í viku. Allar skoðunarskýrslur þar sem fram koma alvarlegar athugasemdir eru auk þess sendar samdægus á faxi. Í gæðakerfi skoðunastofana eru sérstök eftirlitskerfi sem fylgjast með að þessu verklagi sé framfylgt. Öll þessi atriði eru rekjanleg mörg ár aftur í tímann. ESA leitaði ekki eftir þessum upplýsingum hjá skoðunarstofunum og virðist því hafa treyst á að gagnagrunnur Mast gæfi réttar upplýsingar um þessi atriði. Hvort áreiðanleiki þeirra upplýsinga hafi verið kannaður af ESA kemur ekki fram í skýrslunni né heldur hvaða atriði það voru sem skoðunarstofurnar tilkynntu ekki til Mast.

Að lokum ber að geta þess að Matvælastofnun hefur ákveðið að nýta sér ekki lengur ákvæði laga, sem heimilar útvistun eftirlitsverkefnum til faggiltra skoðunarstofa. Skoðunarstofum í sjávarútvegi er því gert að hætta starfsemi þann 1. mars n.k. en þá verður framkvæmd eftirlitsins flutt til opinbera aðila á ný. Áhugavert verður að fylgjast með því hvort ESA meti ástandið í þessum málum betra eftir þá kerfisbreytingu.






Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×