Innlent

Þrisvar sinnum sterkara en stál og fíngert eins og silki

Karen Kjartansdóttir skrifar

Tækifæri gætu falist í að vinna efni til steypustyrkingar úr íslensku basalti. Þetta segja sérfræðingar við Háskólann í Reykjavík. Efnið sem þar er notað er þrisvar sinnum sterkara en stál en getur þó verið létt og fíngert eins og silki þegar það er ofið í mottu til að vefja utan um burðarbita og þegar það er steypt í steypustyrktarteina eru þeir léttir eins og veiðistangir.

Efnið er umhverfisvænna og sterkara en stál. Kostnaður við framleiðsluna á basalti og stáli er svipaður en það mun líkast til breytast því stálverð fer hækkandi í heiminum að sögn Eyþórs Rafns Þórhallssonar, dósents við Háskólann í Reykjavík. Hann segir að því geti tækifæri falist í framleiðslu á basalti enda er gnótt af þessar steintegund hér á landi.

Þegar fréttastofa leit við á verkstæðinu var prófað að vigta tvo jafnlanga steyputeina. Annar var hefðbundinn stálteinn en hinn var unnin úr basalti. Sá úr stálinu vó 250 grömm en sá úr basaltinu vó 50 grömm.

Með því að vefja ofnu efni úr basalti um stólpa er svo hægt að auk þol þeirra úr um 40 prósent. Því er möguleiki að nota efnið til þess að styrkja gamlar byggingar og þær sem ekki þykja uppfylla nútímakröfur um burðarþol, til dæmis með tilliti til jarðskjálfta.

Nánari upplýsingar má sjá í myndskeiðinu sem fylgir fréttinni.

Þess má auk þess geta að rannsóknirnar eru hluti af þriggja ára rannsóknarverkefni sem er leitt af Hátæknisetri Íslands SES og Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samstarfi við Mannvit, Einingaverksmiðjuna og Háskólann í Reykjavík. Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði (RANNÍS), Íbúðalánasjóði og Vegagerðinni.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×