Skoðun

Afstýrum menningarslysi

Jóhann Páll Jóhannsson skrifar

Í borgarstjórn sitja tveir flokkar: Samfylkingin og Besti flokkurinn. Sá fyrrnefndi kennir sig við félagshyggju og jöfn lífstækifæri. Hinn flokkurinn er meðal annars skipaður listafólki og náði kjöri í krafti loforða um skapandi og skemmtilegt samfélag.

Það skýtur því skökku við þegar borgaryfirvöld boða til gegndarlausrar niðurrifsstarfsemi í tónlistarskólum Reykjavíkur. Niðurskurður þessa árs nemur 140 milljónum króna auk þess sem borgin mun hætta að greiða með tónlistarnemum sem eru 16 ára og eldri. Engin starfsemi á vegum borgarinnar mætir jafn grimmilegum niðurskurði og tónlistarskólarnir. Augljóslega geta þeir ekki mætt niðurskurðinum á miðju skólaári og því leggst hann á af fullum þunga í byrjun næsta skólaárs. Námi fjölmargra tónlistarnema er þannig stefnt í hættu og ef svo fer sem horfir gæti tónlistarkennsla á mið- og framhaldsstigi að mestu leyti lagst af. Þar með er rekstrargrundvellinum kippt undan sumum tónlistarskólanna, enda hefur Kjartan Óskarsson, skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík, lýst því yfir að ef ekki verði fallið frá áformunum verði skólanum, sem í 80 ár hefur verið einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs, sjálfhætt í haust.

Almenn tónlistarkennsla er grundvöllur gróskumikils tónlistarlífs. Fyrirhugaður niðurskurður er því ekki aðeins atlaga að tónlistarskólum borgarinnar, heldur hreinlega stríðsyfirlýsing á hendur íslensku tónlistarlífi.

Ævintýralönd tónlistarinnar eru sameiginlegur arfur okkar allra. Í velferðarþjóðfélagi hljótum við að krefjast þess að tónlistarnám standi öllum til boða. Því ber okkur að spyrna við fæti og berjast gegn niðurskurðinum með kjafti og klóm. Ég skora á alla tónlistarunnendur að sameinast í baráttunni fyrir samfélagi jafnra tækifæra og blómlegrar menningar.






Skoðun

Skoðun

76 dagar

Erlingur Sigvaldason skrifar

Sjá meira


×