Skoðun

Auknar þjóðartekjur vegna loðnu

Jón Bjarnason skrifar

Auknar heimildir til loðnuveiða nú á nýju ári eru tvígildur búhnykkur fyrir íslenskt samfélag. Bæði er að mjög óvíst var um ástand stofnsins eftir nokkurra ára lægð og að verð á loðnuafurðum fer nú ört hækkandi.

Haustmælingar Hafrannsóknastofnunar gáfu tilefni til að veittar voru heimildir til 200 þúsund tonna veiði á yfirstandandi fiskveiðiári og var ákvörðun um það tilkynnt í nóvembermánuði. Rannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni var síðan nú í janúar haldið úti við mælingar frá Suðausturlandi, norður um og allt að sunnanverðum Vestfjörðum. Jafnframt komu að þeim mælingum 5 veiðiskip og voru niðurstöður þessara mælinga að í sjónum væru yfir 700 þúsund tonn af kynþroska loðnu.

Það er í framhaldi af þeim niðurstöðum að ég hefi ákveðið að auka heimildir til loðnuveiða um 125 þúsund tonn. Aukningin ein mun skila um 5 milljörðum króna í þjóðarbúið. Í heildina mun loðnuvertíðin skila um 15 milljörðum króna sem er óvænt búsílag og munar um minna.

Sem kunnugt er gaf ráðuneytið ekki út neinar heimildir til loðnuveiða árið 2009 en veiðin hafði þá farið ört minnkandi frá árinu 2005 þegar heildarafli loðnu á Íslandsmiðum var um 700 þúsund tonn.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við sjáum sveiflur í loðnustofninum hér við land. Veiðin fór niður í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar og aftur í byrjun þess níunda. Fyrir áratug fór aflinn aftur á móti í nær 1.300 þúsund tonn og enn hærri var heildartalan á árunum 1996 og 1997, eða liðlega 1.500 þúsund tonn. Miðað við þær tölur er 325 þúsund tonna afli ekki há tala en hér skiptir líka miklu hvernig loðnan nýtist. Margt bendir til að niðursveiflan í stofninum nú síðustu ár tengist hlýnun sjávar hér við land og of snemmt er að slá því föstu að loðnan nái sér varanlega á strik. Þar hafa fæst orð minnsta ábyrgð.

En það sem gerir aukna veiði nú kærkomna er stórfelld hækkun á loðnu og loðnuafurðum. Þannig er talið að hækkunin á mjöli sé um 60% á síðustu tveimur árum og þessa mánuðina rýkur verð á loðnulýsi upp.

Því er full ástæða til að óska þjóðinni til hamingju með aukna loðnuveiði. Enn eru það hin óskiptu yfirráð fullvalda þjóðar yfir sjávarauðlindinni sem munu varða veg okkar út úr kreppu liðinna ára.






Skoðun

Skoðun

76 dagar

Erlingur Sigvaldason skrifar

Sjá meira


×