Skoðun

Samvinnuhreyfingar árið 2012

Skúli Skúlason skrifar
Sameinuðu þjóðirnar, SÞ, hafa valið árið 2012 alþjóðlegt ár tileinkað samvinnuhreyfingum um allan heim. Samvinnufélög eru ýmist fyrirtæki í atvinnurekstri eða samtök með rík samfélagsleg markmið.

Samvinnufyrirtæki eru starfrækt í yfir 90 löndum og talið að félagsmenn séu nálægt milljarði í gegnum International Cooperative Alliance ICA sem eru alþjóðasamtök samvinnufyrirtækja. Samkvæmt ICA skapast um 100 milljónir starfa í heiminum vegna starfsemi samvinnufyrirtækja. Um 80-99% af mjólkurframleiðslu í Noregi, Nýja Sjálandi og Bandaríkjunum á rætur í samvinnufyrirtækjum. Samvinnufyrirtæki eru ábyrg fyrir um 70% fiskiðnaðar í Kóreu, 40% af landbúnaði í Brasilíu, 55% af verslun og þjónustustarfsemi í Singapore og 35% í Danmörku. Samvinnufyrirtæki í fjármálageiranum eru talin þjónusta um 850 milljón manns eða um 13% af mannfjölda heimsins. Samvinnubankar eru 4.200 talsins í heiminum og starfa undir regnhlífarsamtökum European Association of Cooperative Banks. Endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækið KPMG er alþjóðlegt Samvinnufyrirtæki.

Ástæðan fyrir þessu vali Sameinuðu þjóðanna er að viðurkenna framlag Samvinnufélaga til félags- og efnahagslegrar þróunar, sérstaklega með tilliti til þróunar atvinnu og félagslegrar aðlögunar. Markmið ársins er að auka vitund almennings um hlutverk samvinnufélaga, stuðla að vexti samvinnufélaga um allan heim og koma á stefnu og löggjöf sem stuðlar að og styrkir stöðugleika samvinnuhreyfinga.

Samvinnuhugsjónin á Íslandi á rætur í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar á fyrri hluta nítjándu aldar þegar verkafólk og bændur sameinast um stofnun félaga með það markmið að bæta kjör sín og rísa úr fátækt. Á Íslandi eru í dag 37 samvinnufélög og 9 húsnæðissamvinnufélög. Kaupfélag Suðurnesja var stofnað 13. ágúst 1945 og hefur síðan verið kjölfesta í atvinnulífi okkar Suðurnesjamanna.

Samvinnufélög eru byggð á gildum sjálfshjálpar, sjálsábyrgðar, lýðræðis, jafnréttis og samstöðu til eflingar nærsamfélaginu. Samfélagsleg ábyrgð er rík í hugum samvinnumanna og er í raun hjarta félaganna. Siðferðislega eiga þau að starfa á grundvelli heiðarleika, með gegnsæjum starfsháttum, félagslegri ábyrgð og umhyggju fyrir öðrum. Samvinnustarf er þjóðfélagsstefna.




Skoðun

Sjá meira


×