Skoðun

Samráð eykur sátt, gæði og árangur

Hanna Birna Kristjánsdóttir skrifar

Þeir voru glaðlegir forystumennirnir sem á blokkarþaki í Breiðholti í sumarbyrjun boðuðu allskonar fyrir íbúa, aukið lýðræði og stanslausa skemmtun í Reykjavík. Nú nokkrum mánuðum síðar virðist mesta gleðin horfin og mörg fyrirheitin gleymd. Vinnubrögð í borgarstjórn hafa versnað, samráð minnkað og forystumennirnir sjá litla ástæðu til að nýta þá reynslu eða þann árangur sem náðist með nýjum vinnubrögðum á síðasta kjörtímabili.

En látum vera þótt meirihlutinn vilji ekki nýta krafta allra kjörinna fulltrúa eða valdi pólitískum andstæðingum vonbrigðum, enda hefur slíkt því miður verið viðtekin venja í íslenskum stjórnmálum. Verra er þó þegar þau vinnubrögð bitna beint á almenningi og beint á þeim sem eiga að veita og njóta mikilvægrar þjónustu borgarinnar. Það er einmitt það sem nú er að gerast í Reykjavík.

Þannig er þessa dagana unnið að breytingum á skipulagi skólastarfs í borginni. Starfsfólk og samtök þeirra segjast illa upplýst og kalla vinnubrögð meirihlutans „faglega sýndarmennsku", „vonbrigði" og „valdníðslu". Foreldrar og samtök þeirra segja það sama og að upplýsingum sé haldið frá þeim með „leyniplöggum" og „sýndarsamráði". Þessir aðilar krefjast úrbóta, skýringa og svara.

Svörin eru fá en meirihlutinn segir verkefnið erfitt, tímann lítinn og að ákveðna hluti verði að vinna án aðkomu almennings. Virðist þar litlu skipta þótt reynslan sýni að samráð tryggi sátt, gæði og árangur og að ótal tillögur um slíkt hafi verið fluttar sem hefðu getað komið í veg fyrir þau átök sem nú blasa við.

Vandann má þó enn leysa. Fyrsta skrefið er að forystumenn meirihlutans viðurkenni að þeir einir vita ekki endilega best og skilji að það er farsælt að nýta sér ráð og reynslu annarra þegar gengið er til stórra verkefna. Að auki staðfestir hagræðingarvinna liðinna ára hjá Reykjavík að mesti árangurinn náðist með þátttöku og tillögum starfsfólks sem, líkt og almenningur, skilur þörfina og axlar ábyrgðina sé raunverulega eftir því leitað.

Hér þarf önnur og betri vinnubrögð. Skólunum okkar verður ekki, frekar en samfélaginu sjálfu, breytt án kröftugrar aðkomu sem flestra og slík aðkoma mun ekki flækja málið heldur færa okkur farsæla lausn.






Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×