Innlent

Bannar Bylgjunni að spila tónlist sína

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jóhann G. Jóhannsson hefur bannað Bylgjunni að spila tónlist sína.
Jóhann G. Jóhannsson hefur bannað Bylgjunni að spila tónlist sína.
Tónlistarmaðurinn Jóhann G. Jóhannsson hefur ákveðið að banna útvarpsstöðinni Bylgjunni að spila tónlist frá og með þriðjudeginum í næstu viku. Jóhann segir að höfundaréttur sé eignaréttur og því geti höfundur tekið ákvörðun um hvort hann leyfi afnot af verkum sínum eða ekki.

Í yfirlýsingu sem Jóhann sendi fjölmiðlum segir hann að þekkt dægurlög eins og Eina ósk, Hvers vegna varst´ekki kyrr?, Við eigum samleið, Traustur vinur og fleiri smellir verði því ekki spiluð á Bylgjunni.

Jóhann segir að útvarpsþættir eins og Reykjavík síðdegis, Í bítið á Bylgjunni og Sprengisand séu Bylgjunni til sóma. Hann sé hins vegar ósáttur við framkomu tónlistarráðs Bylgjunnar eftir að plata hans „Á langri leið" kom út árið 2009. Platan hlaut ekki náð hjá tónlistarráðinu og hefur ekki veirð í spilun. Við þetta er Jóhann ósáttur og segir að ekki sé tekið tillit til yngri hlustenda.

„Þetta fyrirkomulag hefur stuðlað að einhæfu tónlistarvali, sérstaklega á nýrri íslenskri tónlist, ásamt ofspilun ákveðinna laga sem á endanum gengur af þeim dauðum. Ég fullyrði að þetta fælir burt tónlistarunnendur sem hafa annað viðhorf til tónlistar en að hún sé uppfyllingarefni á milli auglýsinga," segir Jóhann G. í yfirlýsingunni.

Pálmi Guðmundsson, framkvæmdastjóri dagskrársviðs hjá 365 miðlum, segist vera með bréfið frá Jóhanni til skoðunar og mun tjá sig um það síðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×