Skoðun

Samhjálp.is

Inga Sigrún Atladóttir skrifar

Í áramótaávarpi forsetans talaði hann um samtakamátt þjóðarinnar, samhjálp og stuðning. Mér finnst það vera afturhvarf til gilda kynslóðarinnar sem nú er að ljúka sínu ævistarfi. Ég er sammála forsetanum að á þessum gildum væri best að byggja upp framtíð landsins.

En höfum við hugsað um hvernig við höfum farið með samhjálp og traust kynslóðarinnar sem þessa áratugina er að kveðja okkur?

Ég á nokkra vini og ættingja úr þessari kynslóð. Þetta er fólk sem trúði því að bankinn gæti ávaxtað ævisparnaðinn, trúði því að vinalegir bankastarfsmenn væru raunverulegir vinir. Þetta er fólk sem treystir orðum annarra, lítur á handaband sem ígildi samninga, er tilbúið að lána eigur sínar og fé út á trúverðug orð. Ég á nágranna sem bráðum kemst á níræðisaldur, hann færir mér Fréttablaðið úr kassanum á hverjum morgni, lánar mér áhöld og tæki ef honum sýnist mig vanta, færir mér kartöflur og fisk í soðið. Aldrei hefur hann spurt hvað hann geti fengið í staðinn. Í stað þess er hann fullur þakklætis ef ég færi honum eitthvert smáræði.

Við höfum kynnst þessu viðhorfi, of margir hafa notfært sér það og kannski litið á það sem hálfgerðan einfeldningsskap. Nú þegar sagan hefur sýnt okkur að við getum ekki byggt samfélagið upp á siðferði síðustu áratuga er látið eins og íslenska samhjálpin spretti fram rétt eins og þetta hafi bara allt saman legið í fallegum dvala.

Nú kallar forsetinn eftir samhjálp og samábyrgð. En kannski hefur okkur ekki bara mistekist að byggja upp bankakerfi heldur líka mistekist að varðveita samfélag sem hlúir að þessum eignleikum, við höfum látið það viðgangast að þeir sem misnota sér traust annarra komast upp með það. Við höfum sætt okkur við að á Íslandi er enginn umboðsmaður heiðarlegra, bara rándýr lögfræðiaðstoð.

Er hægt að biðja um samhjálp, traust og heiðarleika í samfélagi þar sem sagan sýnir okkur að slíkir eiginleikar borga sig ekki?










Skoðun

Sjá meira


×