Innlent

Icesave á endaspretti í þinginu

Þriðja umræða á Alþingi um Icesave frumvarpið hefst í dag. Gert er ráð fyrir því að atkvæði verði greidd um málið fyrir helgi. Átján þúsund manns hafa nú skrifað undir áskorun til forseta Íslands um að vísa málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fjárlaganefnd og viðskiptanefnd Alþingis fjölluðu afgreiddu frumvarpið í gær. Í kvöldfréttum okkar í gær var greint frá því að þeir þingmenn sem eru á móti Icesave frumvarpinu telja það fá sérstaka flýtimeðferð í þinginu. Það sé gert til þess að frumvarpið berist forseta Íslands til staðfestingar áður en nógu margar undirskriftir safnist til þess að hann finni sig knúinn til að leyfa þjóðinni að greiða atkvæði um málið.

Þingfundur hefst klukkan tvö í dag en tvö mál eru á dagskrá áður en að Icesave frumvarpið verður tekið fyrir. Annars vegar umræða um störf þingsins en hins vegar umræða um dóm Hæstaréttar um mál Flóahrepps og Svandísar Svavarsdóttur.

Í samtali við fréttastofu kveðst Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, ekki vita hvenær atkvæði verða greidd um Icesave málið. Það skýrist þegar mælendaskráin liggur fyrir síðar í dag.

Samkvæmt heimildum fréttastofu munu andstæðingar frumvarpsins taka duglega til máls en ekki er útilokað að atkvæði verði greidd í kvöld. Þá verði þingfundi að öllum líkindum ekki slitið fyrr en seint í kvöld.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×