Innlent

Fulltrúi á stjórnlagaþingi: Ólétt og atvinnulaus

Breki Logason skrifar
Ástrós Gunnlaugsdóttir.
Ástrós Gunnlaugsdóttir.

Hin tuttugu og fjögurra ára gamla Ástrós Gunnlaugsdóttir, sem náði kjöri á Stjórnlagaþing, segir niðurstöðu Hæstaréttar mikil vonbrigði. Hún eyddi sparifénu í kosningabaráttuna, tók sér frí frá námi og situr nú ólétt heima. Hún íhugar að leita réttar síns og vonar að einhver grípi inn í.

Ástrós var ein sú yngsta sem náði kjöri á þingið en hún var nokkuð áberandi í kosningabaráttunni. Hún segist hafa eytt öllu sínu sparifé sem hún hafi safnað frá tólf ára aldri í kynningar á sjálfri sér, því hún hafi litið á þetta sem fjárfestingu í sinni framtíð.

Hún tók sér frí frá námi og segist ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum vegna þess að hún var námsmaður. Hún muni því sitja heima tekjulaus fram á sumar þegar barnið kemur í heiminn.

„Eins og staðan er í dag veit ég ekki annað en að ég er umboðslaus og þá sit ég bara heima fram á sumar. Ég geri ekkert annað þangað til. Ég hef ekkert til þess að grípa í," segir hún.

Ástrós segist hafa hlustað á málflutninginn fyrir Hæstarétti og hafa lauslega kynnt sér niðurstöðuna.

„Fyrir mína parta skil ég að mörgu leytinu til rökstuðning Hæstaréttar. En dómurinn er harður. Það hefði mátt veita áminningu."

Ástrós segir það fyrst og fremst mikilvægt lýðræðinu í landinu að þessi vinna fari fram. Hún treysti sér þó ekki til þess að segja til um hvað eigi að gera í stöðunni. En ætlar hún að leita réttar síns vegna þessa?

„Já. Ég eyddi mínu sparifé í kosningabaráttuna og vinnu. Auðvitað leita ég réttar míns verði þetta niðurstaðan," segir Ástrós að lokum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.