Skoðun

Gaman að vinna hjá ÍTR

Hera Sigurðardóttir og Unnur Gísladóttir skrifar
Hera Sigurðardóttir og Unnur Gísladóttir
Samþykkt hefur verið í borgarráði að sameina tómstundasvið ÍTR og menntasvið Reykjavíkurborgar. Í umræðunni hefur mikið verið rætt um frístundaheimilin en þau sinna frístundastarfi fyrir 6-9 ára börn. Tómstundasvið ÍTR inniheldur einnig félagsmiðstöðvar fyrir 10-16 ára börn og unglinga, frístundaklúbba fyrir 6-16 ára börn og unglinga með fatlanir og Hitt Húsið sem sinnir starfi fyrir 16-25 ára ungmenni.



Borginni er skipt upp í 6 frístundamiðstövar sem settar voru á laggirnar ein af annarri uppúr 2000. Síðan þá hefur starfinu fleygt fram í þróun fagvitundar, eflingu mannauðs, hækkun á menntunarstigi starfsmanna og fjölgun félagsmiðstöðva.



Það er gefandi og gaman að vinna í félagsmiðstöð og þeir sem hafa fengið tækifæri til starfa með unglingum hjá ÍTR geta vottað það að andinn sem þar ríkir nærir mann á einhvern hátt sem erfitt er að útskýra ókunnugum. Þetta er vinnuumhverfi þar sem fólk fær að nýta hæfileika sína, menntun og áhugamál. Það er hvatt til að hugsa skapandi, boðleiðir eru stuttar og þar af leiðandi auðvelt að hafa áhrif. Það er því engin furða að ÍTR skorar hátt á viðhorfskönnunum þjónustuþega starfsins. Unglingar, foreldrar og starfsfólk eru ánægð með ÍTR.



Það hefur ekki farið eins hátt hvað verður um alla þessa starfsemi og þykir okkur það óásættanlegt. Þar sem við höfum áralanga reynslu af starfi með unglingum í félagsmiðstöðvum langar okkur að varpa fram nokkrum spurningum um hvað þessi sameining felur í sér fyrir frístundastarf með unglingum í borginni okkar með tilliti til þróunnar fagsins undanfarin ár. Hvað felur þessi sameining í sér? Mun starfið halda áfram í óbreyttri mynd? Hvað verður um frístundamiðstöðvarnar sem hafa eytt miklum tíma og peningum í að sérhæfa sig og sitt starfsfólk í að vinna eftir ákveðnum hugmyndafræðum? Hvað verður um sumarstarf félagsmiðstöðvanna? Hvað verður um sérhæfð verkefni og starf með 16 ára og eldri? Hvar er verið að spara?



Það sem einkennir starfsfólk ÍTR er að það er móttækilegt fyrir nýjum hugmyndum, alltaf til í að takast á við ný verkefni, endurskoðun og endurlit. Við erum tilbúin að skoða jákvæðar breytingar en við erum ekki tilbúin til að fórna þróun síðustu 25 ára, metnaðarfullri uppbyggingu faglegs frítíma og fagstarfi fyrir vanhugsaða og illa kynnta sameiningu sviða sem gæti hugsanlega orðið til að við séum að taka skref aftur á bak í stað þess að stíga fram á við. Eða hvað?




Skoðun

Sjá meira


×