Erlent

Kærir bar fyrir að afgreiða sig - keyrði út af og lamaðist

mynd/AP
Bandarísk kona á tvítugsaldri sem stórslasaðist í bílslysi eftir að hafa ekið undir áhrifum hefur höfðað mál gegn krá sem afgreiddi hana án þess að krefja hana um að sýna skilríki.

Chelsea Hess var tvítug þegar slysið átti sér stað árið 2009. Hún ók bíl sínum út af vegi með þeim afleiðingum að hún kastaðist út úr farartækinu og lamaðist í kjölfarið.

Rannsókn leiddi í ljós að áfengismagn í blóði Chelsea var langt yfir refsimörkum. Slysið átti sér stað í Suður-Karólínu en löglegur drykkjualdir í fylkinu er 21.

Chelsea viðurkennir að hafa drukkið ásamt vinum sínum fyrr um kvöldið. Hún telur að starfsmenn barsins beri ábyrgð á slysinu og það þeir hafi sýnt vítavert gáleysi með því að biðja hana ekki um að sýna skilríki.

Chelsea hefur einnig ákveðið að fara í mál við Samgönguráðuneyti Suður-Karólínu vegna slæms ástands vegarkaflans sem hún ók á þegar slysið átti sér stað.

Málið hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum og hefur umræða skapast um réttmæti skaðabóta í málum sem þessum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×