Skoðun

Samtaka nú

Thor Vilhjálmsson skrifar

Í erfidrykkju mikillar sæmdarkonu í sinni sveit sem allir lofuðu daglangt í ræðum og skálum þá kvaddi sér hljóðs héraðsskáld sem menn væntu hjá fagurrar slaufu á ræðuhöldin. Í ræðu sinni gat hann þess, þegar hann sló fram sínu trompspili mærðar, að svo hefði konan verið mikil og merk, að hún hefði jafnvel haft mannsvit.

Hvernig hefði haldizt byggð á Íslandi ef konurnar hefðu ekki borið uppi allt og brugðizt við öllu sem kæmi upp á heima fyrir þegar karlarnir voru í verinu, í öðrum landshlutum iðulega? Þá voru konurnar nánast eins og í vísu Stephans G. Stephanssonar: „Löngum var ég læknir minn, / lögfræðingur, prestur, / smiður, kóngur, kennarinn,/ kerra, plógur hestur."

Fyrir utan það að fæða sjálft lífið og fóstra það og skýla fyrir öllum áföllum; spá í veður, vita hvenær væri óhætt að senda barn á næsta bæ; finna á sér gestakomur, hvort það væri lífs eða liðið, kunna háttvísibrögð gagnvart draugum og koma forsendingum af sér, líka þegar ekki yrði beitt öðru en rétt kveðinni vísu, til að verja ríki sitt og afkvæmi og bú meðan maðurinn barðist á framandi slóðum í verinu við ofríki náttúrunnar og hafofsa þegar því var að skipta á litlum árabátum.

Enn byggist allt hið dýrmætasta í lífinu og ævintýrum þess á konunum. Körlum verður oft áfátt með því að vanmeta atgervi kvenna. Og hlunnfara samfélagið með því að þær hafi ekki réttmæt tækifæri til að njóta sín til sameiginlegra heilla.

Það ætti að vera keppikeflið: samstilling, gagnkvæm virðing. Og vinna þá til þess að verðskulda hana.

Það er kannski farið að gleymast núna þetta sem var svo mikilvægt þegar bátar voru settir fram til að róa eftir lífsbjörg, fyrir utan sjóbænir. Þá var sagt: Samtaka nú.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×