Innlent

„Alþingi á flótta undan þjóðinni er einskis virði“

Þór Saari situr í fjárlaganefnd fyrir Hreyfinguna.
Þór Saari situr í fjárlaganefnd fyrir Hreyfinguna. Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Þingmenn Hreyfingarinnar gagnrýna harðlega meðferð Icesave frumvarpsins á Alþingi. Vinnubrögðin veki óneitanlega upp spurningar um siðferðilega stöðu þess. Að mati þingmannanna er Alþingi á flótta undan þjóðinni einskis virði.

Þriðja og síðasta umræða um Icesave málið fer fram á Alþingi í dag. Afbrigði voru samþykkt svo leggja mætti fram breytingartillögu í málinu sem gerir ráð fyrir því að þjóðin greiði atkvæði um málið að lokum. Þá var tillögu um aukinn ræðutíma í málinu hafnað af forseta Alþingis.

Þingmenn Hreyfingarinnar gera tvær breytingartillögur við málið og leggja meðal annars til, ásamt þremur þingmönnum Framsóknarflokksins, að Alþingi samþykki að láta þjóðaratkvæðagreiðslu fara fram um málið.  

„Meðferð málsins á Alþingi hefur síst verið til fyrirmyndar. Það verklag sem hófst í fjárlaganefnd með einhliða riftun meiri hlutans á samkomulagi forseta Alþingis og formanna þingflokka, sem undirritað var 16. desember, hélt áfram fram á loksprettinum. Álit efnahags- og skattanefndar var ekki tekið fyrir efnislega og farið var með álit minni hluta viðskiptanefndar eins og hvern annan óþarfa. Sú mikla skýrsla sem Seðlabankinn lagði fram um skuldastöðu þjóðarinnar fékk heldur ekki neina efnislega umfjöllun í nefndinni,“ segir í yfirlýsingu frá Hreyfingunni.

Þingmennirnir segja vinnu við málið í fjárlaganefnd hafa því verið á forsendum meirihlutans sem hafi ekki aðeins hafnað samvinnu um málið heldur rofið undirritað samkomulag um málsmeðferðina.

„Það er dapurlegt að hugsa til þess að sjálft löggjafarvald þjóðarinnar skuli ástunda slík vinnubrögð og vekur óneitanlega upp spurningar um siðferðilega stöðu þess.  Þá vekur það mikla kapp sem stuðningsmenn málsins á Alþingi leggja nú á við að hraða afgreiðslu þess einnig upp spurningar um við hvern kappi er att.  Almenningur sem í þúsunda tali krefst þjóðaratkvæðagreiðslu um málið kemur fyrst upp í hugann.  Alþingi á flótta undan þjóðinni er einskis virði.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×