Skoðun

Þeir sjá ekki til okkar

Valgarður Egilsson skrifar

Það er skrýtið að skoða hvernig menn ætla sér að lifa á Íslandi. Á óragróðatímum töldu menn einsætt að lifa á fjárbréfa-leikum, það væri langauðveldasta leiðin, það væri hinn nýi tími. Annað væri hálf-asnalegt.

Og óþarft væri að framleiða einhverjar vörur eða setja fé eða hugvit eða hugmyndaflug í þróun grunnatvinnuveganna, t.d. matvælaframleiðslu, enda þarf þá að fást við margbreytilegar upplýsingar og flóknar. Til þess þarf að vera klár.

Öðrum detta í hug aðeins fáar hugmyndir og stærri í sniðum, það er auðveldara fyrir stjórnmálamenn að tileinka sér þær, t.d. að virkja afl fossa. Margir halda að Íslendingar lifi ekki af nema að virkja fossa. Sjálfvitar eiga ekki að fá fleiri hugmyndir.

Hvernig lifir menningarþjóðin Danir af, þeir eiga ekki einn einasta foss?

Hvernig ætla Íslendingar að lifa þegar allir fossar eru búnir? Sem verður fljótlega.

Og hvernig fara Hollendingar að, sem eiga bara öfuga fossa? Láta vatnið renna uppímóti.

Voru Íslendingar ekki einmitt búnir einhverjum sérstökum undrahæfileikum, sagði það ekki einhver?

En það er náttúrlega ekki gott að vera með mikið hugmyndaflug innan stjórnmálaflokka. Það gæti líka skyggt á foringjana.

Auðvitað getum við haldið áfram að tuddast á náttúrunni í stað þess að sinna náttúruvernd

Þegar þögninni er útrýmt úr umhverfi okkar þá er það eins og að missa eitt band úr litrófi sólarljóssins.

Óbornir afkomendur eiga sama rétt og við til náttúru jarðar. Við jafnréttissinnaðir Íslendingar hirðum ekki um þann rétt þeirra - meðan þeir sjá ekki til okkar.






Skoðun

Skoðun

76 dagar

Erlingur Sigvaldason skrifar

Sjá meira


×