Erlent

Íraksstjórn vill fá Hashemi afhentan

Hashemi eftirlýstur Fréttir af flótta og handtökuskipun á hendur aðstoðarforsætisráðherra landsins hafa vakið mikla eftirtekt.nordicphotos/AFP
Hashemi eftirlýstur Fréttir af flótta og handtökuskipun á hendur aðstoðarforsætisráðherra landsins hafa vakið mikla eftirtekt.nordicphotos/AFP
Spenna milli þjóðernishópanna þriggja í Írak magnast á ný, strax og Bandaríkjaher yfirgefur landið. Forsætisráðherrann, sem er sjía-múslimi, krefst þess að kúrdar láti af hendi aðstoðarforsætisráðherrann, sem er súnní-múslimi.

Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, krefst þess nú að yfirvöld sjálfstjórnarhéraðs kúrda í norðurhluta landsins, láti af hendi Tarik al-Hashemi aðstoðarforsætisráðherra, sem sakaður er um alvarlega glæpi.

Hashemi, sem er súnní-múslimi, flúði norður í kúrdahéröðin á sunnudag, daginn áður en handtökuskipun var gefin út á hendur honum. Hann er sakaður um að hafa verið með morðsveitir á sínum snærum, sem sendar voru til höfuðs embættismönnum stjórnarinnar.

Hashemi segir þessar ásakanir uppspuna einan og runnar undan rifjum pólitískra andstæðinga sinna, einkum forsætisráðherrans sjálfs, sem er sjía-múslimi.

Hann segir að þetta mál muni splundra viðkvæmu sáttaferli milli sjía og súnnía, nú þegar Bandaríkjaher er nýfarinn frá landinu.

Al-Maliki svarar því til að Hashemi muni fá sanngjörn réttarhöld, rétt eins og Saddam Hussein fékk á sínum tíma.

Hann minnir kúrda á að Írak sé eitt og óskipt land. Yfirvöld í kúrdahéruðunum eigi því að afhenta Hashemi til íraskra stjórnvalda.

„Ef þeir afhenda hann ekki eða leyfa honum að flýja eða komast undan, þá mun það leiða af sér vandamál,“ sagði Maliki.

Sá möguleiki er fyrir hendi að Hashemi flýi yfir til kúrdahéraðanna í Tyrklandi, handan landamæranna.

Meðan Saddam Hússein var við völd í Írak nutu súnní-múslimar þess, þótt í minnihluta væru, enda var hann súnníi sjálfur. Vegur sjía-meirihlutans hefur hins vegar vaxið eftir fall Saddams og deila nú þessir tveir hópar með sér völdum.

Ásakanirnar á hendur varaforsetanum vöktu upp vangaveltur um að Maliki forsætisráðherra ætli með þessu fyrst og fremst að treysta eigin völd á kostnað sjía-múslima.

„Ég leyfi mér ekki að prútta um blóð Íraka,“ sagði Maliki og stendur fast á því að Hashemi fái ekki að komast upp með svo alvarlega glæpi.

Síðustu bandarísku hermennirnir hafa undanfarna yfirgefið Írak eftir nærri níu ára stríð, sem hófst í mars árið 2003.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×