Innlent

Vanþakklátasta starf í heimi

Lárentsínus Kristjánsson Að hans mati eru enn matarholur í eignarsafni skilanefndar Landsbankans. Iceland Foods sé til dæmis metið langt undir raunverulegu virði í fjárhagsupplýsingum búsins.
Lárentsínus Kristjánsson Að hans mati eru enn matarholur í eignarsafni skilanefndar Landsbankans. Iceland Foods sé til dæmis metið langt undir raunverulegu virði í fjárhagsupplýsingum búsins. Fréttablaðið/GVA
Lárentsínus Kristjánsson var í hópi þeirra sem kallaðir voru til fundar í Fjármálaeftirlitinu (FME) snemma morguns þriðjudaginn 7. október 2008 til að taka sæti í skilanefnd fallins banka, Landsbankans. Undanfarin ár hefur hann gegnt starfi formanns nefndarinnar en hún verður lögð niður um áramótin.

„Við vorum kallaðir út klukkan þrjú að nóttu til aðfaranótt þriðjudagsins 7. október 2008. Ég fann strax að það var eitthvað mikið að gerast og fór niður á skrifstofu til að undirbúa mig fyrir fund með stjórn FME klukkan átta um morguninn. Við sátum í um klukkutíma hjá stjórninni. Það var mjög eftirminnilegt þegar Jón Sigurðsson, þáverandi formaður stjórnarinnar, sagði við okkur að við værum líklegast að taka að okkur vanþakklátasta starf sem væri í boði. Á þeim tíma skildi ég ekki þau ummæli. Ég taldi mig vera að fara að hreinsa upp eftir aðra og leysa vandamál. Síðar kom þó á daginn að þetta var kannski rétt ályktað hjá Jóni og við höfum aldrei lent ofarlega á vinsældalistum,“ segir Lárentsínus Kristjánsson, formaður skilanefndar Landsbankans, sem mun láta af því starfi þegar nefndin verður lögð niður um áramót.

Eins og járnbrautarstöðHann segir að það hafi verið eins og að koma inn á járnbrautarstöð þegar skilanefndin kom fyrst inn í Landsbankann eftir að hafa tekið hann yfir. Ringulreiðin hafi verið mikil. „Þegar við sáum umfangið, hversu miklar skuldir voru í bankanum og hversu lítið okkur fannst vera til upp í þær á þeim tímapunkti þá kom á okkur. Þessi gríðarlega stærð var mjög yfirþyrmandi og fyrstu mánuðina unnum við 14-18 klukkutíma alla daga vikunnar. Þetta hefur verið gríðarlegt álag, en líka mjög skemmtilegur og lærdómsríkur tími. Það er í mjög mörg horn að líta í svona vinnu.“

Lárentsínus segir blendnar tilfinningar fylgja því að hætta að starfa fyrir skilanefndina. „Það er ágætt að losna undan þessu mikla álagi sem hefur fylgt þessari vinnu og geta snúið mér aftur að lögmennskunni. Á hinn bóginn er óskemmtilegt að geta ekki fengið að klára þetta verk sem er svona langt komið og hefur gengið jafn vel og raun ber vitni.

Ég hef ekki skilið þau rök sem ráðherra hefur beitt fyrir því að leggja niður skilanefndirnar. Að við höfum verið einhvers konar millistykki við kröfuhafa. Ég sé ekki að neitt breytist við það að skilanefndirnar verði lagðar niður. Eins og einhver orðaði það þá gerist ekkert annað en að verkefnin fara frá einum lögfræðingahópi, skilanefndinni, til annars, slitastjórnarinnar. Verkefnin breytast ekkert. Um leið er tekin út þriggja ára reynsla og tengsl.“

Stóru málin búinAð sögn Lárentsínusar eru flest stóru ágreiningsmálin sem skilanefndin hefur þurft að glíma við á síðustu rúmlega þremur árum leyst. Stærsta verkefnið sem stendur eftir er salan á eignarhlut búsins í Iceland Foods og minni smásölukeðjum á borð við Hamleys, Aurum og House of Frasier. Hann er sannfærður um að allar forgangskröfur, alls um 1.319 milljarðar króna, verði greiddar og að almennir kröfuhafar fái líka eitthvað upp í sínar kröfur. „Ef farið er yfir fjárhagsupplýsingarnar hjá okkur þá er það mitt mat að þar eru ennþá matarholur. Til dæmis Iceland Foods. Við erum augljóslega að meta það niður um tugi milljarða króna. Við höfum heldur ekki bókfært skilyrta skuldabréfið sem við eigum á nýja bankann að fullu þrátt fyrir að hafa lýst því yfir að við teljum okkur ná því að fullu. Það verða því einhverjar endurheimtur fyrir almenna kröfuhafa. Það er nokkuð ljóst í mínum huga miðað við að engar þær breytingar verði til hins verra í efnahagsmálum einkum á meginlandinu sem áhrif geta haft á lánasöfn.

Vinnan í kringum þetta, fyrir utan Iceland Foods, er orðin hverfandi. Lánasöfnin eru í góðum farvegi og fyrir utan eitt og eitt lánamál sem kemur inn á borð til okkar er þetta allt komið í mjög fastar skorður. Þegar salan á Iceland Foods klárast þá verður umfangið líkast til orðið um 10-15% af því sem það var þegar við byrjuðum, þ.e.a.s vinna skilanefndar.“

Skiptir miklu máliGamli Landsbankinn greiddi fyrstu greiðsluna til kröfuhafa í byrjun desember, alls 432 milljarða króna, eða 31% af forgangskröfum í bú bankans. Að sögn Lárentsínusar skiptir það miklu máli að það sé byrjað að greiða út úr þrotabúinu. „Það er auðvitað slitastjórnin sem sér um að greiða út. Verkaskiptingin á milli okkar og hennar er, í einföldu máli, þannig að við sækjum peningana, réttum slitastjórninni þá og hún ákveður hversu mikið er greitt út og hversu mikið í einu. Það er ómögulegt að segja hvenær þetta ferli mun klárast. Það getur vel verið að málin þróist á þann veg að hægt sé að ljúka skiptum fljótlega í gegnum nauðasamning en ef það gerist ekki þá geta lánasöfn verið tiltölulega lengi að borga sig niður. Það gæti tekið nokkur ár enn.“

Samningaviðræður í gangiÓformlegar viðræður hafa verið í gangi milli skilanefndarinnar og nýja Landsbankans um uppgjör á skilyrtu skuldabréfi sem gefið var út í tengslum við uppgjör á milli þeirra í desember 2009.

Skuldabréfið er bundið við frammistöðu ákveðinna eigna sem færðar voru inn í nýja bankann og á að gefa út í árslok 2012. Skilanefndin vill flýta uppgjörinu til að eyða óvissu en virði þess getur hæst numið 92 milljörðum króna. Ef það innheimtist að fullu mun skilanefndin skila íslenska ríkinu 18,7% hlut í nýja Landsbankanum og hann þar með verða að fullu í eigu þess.

Lárentsínus segir viðræður um uppgjörið enn standa yfir og að þær þokist áfram. „Við teljum að nýi bankinn ætti nú þegar að geta gefið út bréfið þar sem undirliggjandi verðmæti hafi náð þessum 92 milljörðum. Það er einhver meiningarmunur þar á milli aðila en það eru allra hagsmunir að það verði gengið frá þessu máli sem fyrst.

Sterkasta vopnið í okkar höndum er að við erum með mjög góðan samning í höndunum. Við getum beðið út árið 2012 og fengið bréfið útgefið fljótlega í kjölfarið. Nýi bankinn vill auðvitað fá eitthvað í staðinn fyrir að gera þetta upp núna og sleppa því þá að fara í virðismatsferli sem verður flókið og dýrt. Það er verið að þreifa á niðurstöðu í því og viðræður standa yfir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×