Innlent

Undirbúa snjóframleiðslu í Ártúnsbrekku

Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins stefna að því að framleiða snjó í Ártúnsbrekku. Um tilraunaverkefni er að ræða, en reynist tækjabúnaðurinn vel er hugsanlegt að lagt verði í kaup á snjóbyssu. Fréttablaðið/Vilhelm
Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins stefna að því að framleiða snjó í Ártúnsbrekku. Um tilraunaverkefni er að ræða, en reynist tækjabúnaðurinn vel er hugsanlegt að lagt verði í kaup á snjóbyssu. Fréttablaðið/Vilhelm
Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins stefna að því að koma upp snjóbyssu við skíðasvæðið í Ártúnsbrekku. Að sögn Magnúsar Árnasonar, framkvæmdastjóra skíðasvæðanna, er um tilraunaverkefni að ræða, en tilgangurinn er meðal annars að geta boðið upp á fleiri skíðadaga á vetri og sýna fram á kosti snjóframleiðslu.

„Hugmyndin er þannig til komin að síðustu tvo vetur snjóaði lítið þrátt fyrir mikinn kulda, en það voru kjöraðstæður til snjóframleiðslu,“ segir Magnús í samtali við Fréttablaðið.

„Veturinn 2009 til 2010 og í janúar í ár hefði til dæmis verið hægt að framleiða snjó á fullu.“

Magnús bætir því við að ef allt gangi upp sé stefnan að framleiða snjó í Ártúnsbrekku þegar aðstæður eru fyrir hendi og þá sérstaklega ef lokað er uppi í Bláfjöllum. Svæðið muni bæði nýtast almenningi og skíðadeildum.

„Þannig að við erum að vonast til þess að fá tækifæri til að sýna borgarbúum hversu auðvelt þetta er og hversu vel framleiddur snjór getur haldist. Að vera með eina hvíta brekku í annars snjólausri borg ætti að vekja gott umtal um snjóframleiðslu.“

Ástæða þess að Ártúnsbrekka verður fyrir valinu fyrir þetta tilraunaverkefni er aðgangur að vatni. Í Bláfjöllum er takmarkað magn af neysluvatni sem myndi klárast afar fljótt ef það yrði tengt við snjóbyssuna.

Umhverfis- og samgönguráð Reykjavíkurborgar fjallaði um málið á síðasta fundi sínum og fagnaði þar tillögum um að nýta skíðasvæðið í Ártúnsbrekku betur, en lagði ríka áherslu á að vatnstaka úr ánni muni ekki hafa náttúruspjöll í för með sér.

Samkvæmt greinargerð Magnúsar verður vatnið tekið úr hyl í Elliðaám þar sem enginn lax er. Frá dælunni verður lögð 300 metra lögn ofanjarðar upp í brekkuna. Dælan flytur 8,3 lítra vatns á sekúndu.

Veiðimálastofnun hefur þegar gefið jákvæða umsögn um verkefnið þar sem segir að verði öllum reglum framfylgt, muni það ekki hafa áhrif á lífríki ánna.

Engin íblöndunarefni eru notuð í framleiðsluna, en snjór sem er búinn til með þessum hætti er lengur að bráðna en náttúrulegur snjór. Það er vegna þess að snjókorn frjósa út á við, en tilbúinn snjór frýs inn á við.

Snjóbyssan er fengin að láni, án endurgjalds, frá framleiðanda en Magnús segir að ef þessi tilraun heppnist vel á næstu misserum, sé hugsanlegt að lagt verði í kaup á snjóbyssu. Slíkt tæki kostar hins vegar á milli 30 og 40 þúsund evrur, fyrir utan virðisaukaskatt og aðflutningsgjöld.

Málið liggur nú hjá ÍTR sem ákveður hvort lagt verður út í verkefnið.

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×