Handbolti

Utan vallar: Stelpurnar okkar náðu markmiðinu í frumraun sinni á HM

Sigurður Elvar Þórólfsson í Santos skrifar
Systurnar Dagný og Hrafnhildur fagna.
Systurnar Dagný og Hrafnhildur fagna. mynd/pjetur
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta hefur svo sannarlega komið á óvart á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Brasilíu. Fyrsta heimsmeistaramótið hjá stelpunum okkar en til samanburðar komst karlalandsliðið í fyrsta sinn í lokakeppni HM árið 1958. Kvennalandsliðið hefur nú komist á tvö stórmót í röð, kjarni liðsins er ungur að árum og framtíðin er því björt hjá þessu liði.

Stelpurnar okkar náðu markmiðum sínum með því að komast í 16-liða úrslit og það er frábær árangur í frumraun liðsins á heimsmeistaramóti.

Ágúst Jóhannsson þjálfari liðsins er með frábæran efnivið í höndunum og þetta lið á örugglega eftir að gleðja íslensku þjóðina oftar á stórmóti á meðan mesta skammdegið ríkir í desember.

Ég hef aðeins minnst á peninga og afreksmál í pistlum mínum héðan frá Santos. Fjárhagslegur stuðningur við afreksfólk er mikilvægur og það er verk að vinna í þeim málum á Íslandi.

Kröfurnar og væntingarnar eru miklar en það hefur verið lögð of lítil áhersla á að búa til vinnuumhverfi sem aðstoðar okkar frábæra íþróttafólk til þess að ná árangri.

Þeir sem ætla sér að komast í fremstu röð í heiminum í hvaða íþróttagrein sem er byrja ekki á því að óska eftir fjárhagslegum stuðningi. Fyrst þarf að sanna sig, ná árangri, sýna vinnusemi, dugnað og æfa meira en allir aðrir. Íþróttafólkið gerir allt þetta nú þegar án þessa að vera væla mikið yfir því.

Það vill ná árangri en það er erfitt að mæla sig við þá bestu þegar ekki er hægt að gera það sama og keppinautarnir.

Eins og staðan er í dag þá þarf sá íslenski íþróttamaður sem ætlar sér að komast í heimsklassa að fórna öllu til þess að ná markmiðinu. Það þýðir m.a. að búa á hótel mömmu langt fram yfir fertugsaldur.

Tvær æfingar á dag er regla en ekki undantekning, þetta er gert samhliða námi eða vinnu. Og þegar uppi er staðið á hinn sami engar eignir, skuldir hafa hrannast upp og réttur þeirra í samtryggingarkerfinu er lítill sem enginn.

Þessu er hægt að breyta, og til þess þarf aðeins vilja og þor þeirra sem forgangsraða skatttekjum íslenska þjóðarbúsins




Fleiri fréttir

Sjá meira


×