Viðskipti innlent

Exista búið að gera upp við Arion banka

Arion banki Samkomulag um uppgjör deilumála bankans við Klakka/Exista var undirritað í sumar.Fréttablaðið/Pjetur
Arion banki Samkomulag um uppgjör deilumála bankans við Klakka/Exista var undirritað í sumar.Fréttablaðið/Pjetur
Viðskipti Eignarhlutur Arion banka í Klakka, sem hét áður Exista, jókst úr 19,6% í 44,9% eftir að bankinn gerði samkomulag við félagið síðastliðið sumar um uppgjör deilumála milli aðilanna. Þetta staðfestir Magnús Scheving Thorsteinsson, forstjóri Klakka/Exista. „Í sumar var gengið frá samkomulagi um uppgjör allra deilumála við Arion. Í því fólst að hlutur Arion í Klakka jókst með þessum hætti.“ Klakki/Exista gekk í gegnum nauðasamning haustið 2010. Í honum fólst meðal annars að kröfuhafar þess breyttu 10% af 239,1 milljarðs króna kröfum í hlutafé. 90% krafnanna var síðan breytt í kröfur sem breytanlegar eru í hlutabréf í félaginu ef því tekst ekki að greiða eftirstöðvum skuldanna fram til loka árs 2030. Við þetta lækkuðu skuldir Klakka/Exista-samstæðunnar um 308 milljarða króna. Það er stærsta staðfesta niðurfærsla á lánum til íslensks fyrirtækis, ef föllnu bankarnir eru frátaldir. Eftir gerð nauðasamningsins hafa fleiri kröfur verið samþykktar og gefið út nýtt hlutafé í samræmi við þær. Sú stærsta er vegna uppgjörsins við Arion banka síðastliðið sumar þegar bankinn fékk 6,1 milljarð króna í nýju hlutafé afhent. Við það fór eignarhlutur bankans úr 19,6% í 44,9%. Hann er langstærsti eigandi Klakka/Exista. Næstir honum koma þrír erlendir vogunarsjóðir með samtals 17,5% hlut. Klakki/Exista tapaði 10,5 milljörðum krónum í fyrra. Eigið fé þess er þó jákvætt um 65 milljarða króna, sem er gríðarlega sterk staða. Helstu eignir félagsins eru rekstrarfélög með mikla markaðshlutdeild á Íslandi. Þeirra helst eru Skipti (móðurfélag Símans, Mílu og Skjásins), VÍS, Lífís og Lýsing hf. Í sumar samdi Arion banki einnig við skilanefnd Kaupþings um að ákveðnar eignir flyttust á milli þeirra. Eignir sem hafa legið hjá skilanefndinni og tengjast Klakka/Exista eru ekki þar meðtaldar, samkvæmt upplýsingum frá bankanum. Á meðal þeirra eigna voru krafa vegna skaðleysisyfirlýsingar vegna kaupa á hlutabréfum í finnska félaginu Sampo sem skilanefndin átti á Klakka/Exista upp á 588 milljónir evra, um 93,6 milljarða króna. Þar undir eru líka opnir framvirkir gjaldeyrissamningar sem félagið vildi áður gera upp með tugmilljarða hagnaði en bíða nú niðurstöðu dómstóla. thordur@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×