Handbolti

HM 2011: "Þetta er stórt verkefni fyrir okkur“

Sigurður Elvar Þórólfsson í Santos skrifar
Íslensku landsliðskonurnar hafa æft í Santos í Brasilíu síðustu dagana en þar mætir Ísland sterku liði Svartfjallalands í frumraun sinni í úrslitakeppni heimsmeistaramóts í handbolta.
Íslensku landsliðskonurnar hafa æft í Santos í Brasilíu síðustu dagana en þar mætir Ísland sterku liði Svartfjallalands í frumraun sinni í úrslitakeppni heimsmeistaramóts í handbolta. Mynd/Pjetur
Mótherjar Íslands í fyrsta leiknum á heimsmeistaramótinu er Svartfjallaland sem er til alls líklegt á þessu móti. Flestir gera ráð fyrir því að Evrópumeistaralið Noregs undir stjórn Þóris Hergeirssonar og Svartfjallaland muni berjast um efsta sætið í A-riðlinum í Santos. Og þessi lið gætu jafnvel farið alla leið á þessu móti.

Ísland og Svartfjallaland áttust við í riðlakeppni Evrópumótsins í Danmörku í desember í fyrra þar sem Ísland tapaði með þriggja marka mun, 26-23. Forráðamaður Svartfellinga sagði í gær að markmiðin væru skýr. Að tryggja liðinu farseðil á Ólympíuleikana og þá kemur ekki margt annað til greina en að komast í sjálfan úrslitaleikinn – í það minnsta.

„Þetta lið sem við erum mæta er gríðarlega sterkt og í raun bara félagsliðið Buducnost sem endaði í öðru sæti í Meistaradeildinni í fyrra. Og það lið mun að mínu mati vinna Meistaradeildina í ár. Þetta er stórt verkefni fyrir okkur," sagði Ágúst Jóhannsson, þjálfari íslenska liðsins, í gær eftir æfingu liðsins í Arena Santos.

Ákefðin þarf að vera í lagi„Við þurfum að leggja mikla áherslu á að ganga út í skytturnar þeirra, og vera með ákefðina í lagi. Það verður rauði þráðurinn í okkar leikskipulagi til þess að byrja með," bætti Ágúst við.

Íslenska liðið æfði af miklum krafti í gær á síðustu æfingunni fyrir frumsýninguna í dag. Allir leikmenn liðsins eru heilir og einbeitingin skín úr augum þeirra. Það er alveg ljóst að leikurinn gegn Svartfjallalandi verður gríðarlega erfiður en Anna Úrsúla Guðmundsdóttir er hvergi smeyk.

„Við reynum að negla þær, þær eru hrikalegalega góðar og líklega með bestu leikmenn mótsins í sínum röðum. Við verðum allar að leggjast á eitt og sýna okkar styrk og það sem hefur leitt okkur hingað," sagði Anna í gær en það er ljóst að línumaðurinn mun standa í ströngu í vörn sem sókn gegn líkamlega sterku liði Svartfjallalands í leiknum í dag.

Fáir iðkendur en mikill áhugiÍbúafjöldinn í Svartfjallalandi er aðeins um 700.000 en athygli vekur að aðeins eitt þúsund skráðir iðkendur eru í handbolta í landinu. Til samanburðar eru rúmlega sex þúsund skráðir iðkendur á Íslandi. Einn forsvarsmanna liðsins segir að um 50% af landsmönnum muni horfa á beinar útsendingar frá leikjum liðsins.

Svartfjalland komst, líkt og Ísland, á HM í gegnum umspil. Svartfjallaland vann Tékka samanlagt 75-52 í tveimur leikjum. Ísland vann Úkraínu 61-42 samanlagt í tveimur leikjum. Svartfjallaland endaði í sjötta sæti á Evrópumeistaramótinu í Danmörku í desember á síðasta ári. Það var í fyrsta sinn sem Svartfjallaland komst inn í úrslitakeppni EM en Íslendingar voru í sömu sporum á því móti, sem nýliðar.

Reynum að halda okkur á jörðinni„Það er rosalega gott að vera komin á stórmót, HM, og allt. En við erum að reyna að halda okkur á jörðinni og líta á þetta sem venjulegan landsleik. Einn leik í einu og allt það. Þannig er stemningin í hópnum," sagði Hanna Guðrún Stefánsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×