Skoðun

Hefur dauður maður hag af flugvelli?

Ómar Ragnarsson skrifar
Í grein Gunnars Guðmundssonar og Arnar Sigurðssonar um Reykjavíkurflugvöll í Fréttablaðinu er í greinarlok beðið um „rökstuðning, sanngirni og fagleg vinnubrögð", sem skort hafi í grein minni í blaðinu nokkrum dögum fyrr.

Samt er síðasta setning greinar þeirra svona: „Skrif Ómars Ragnarssonar flugrekanda bera öll þessi einkenni". Takið eftir orðinu flugrekandi sem er lokahnykkur greinar þeirra. Er þetta „rökstuðningur"?

Í grein minni reifaði ég rök og mótrök í 11 liðum í málinu. Ekki er að sjá að Gunnar og Örn fari eftir kröfu þeirra sjálfra um málflutning því að þeir falla í gamla íslenska gryfju, að dæma mál ekki eftir rökum, heldur því hver setur þau fram.

Frá upphafi til enda í grein sinni gefa þeir í skyn að grein mín sé ekki marktæk með því að beina málinu sífellt að mér persónulega og nefna alls sjö sinnum orð eins og „flugvélareigandi og flugrekandi", „hollvinur flugsins", „hagsmunir flugrekenda" og „persónulegir hagsmunir".

Nú vill svo til að enda þótt ég eigi flugvél hefur hún ekki flogið síðan í fyrravetur og ekki verið í Reykjavík né lent þar í tvö ár.

Ég reikna með svipuðu ástandi hér eftir.

Samt kalla þeir mig flugrekanda, væntanlega til þess að gefa í skyn að ég hafi sérstakan hag sem flugrekandi af því að hafa flugvöllinn sem næst mér.

Hitt er enn verra fyrir þeirra málflutning, að samkvæmt áætlunum um að leggja Reykjavíkurflugvöll niður átti að ljúka því árið 2024 en ekki 2016 eins og þeir segja.

2024 verð ég 84 ára ef ég lifi. Miðað við lífslíkur meðaljóns eru meiri líkur á því að ég verði dauður en lifandi þegar flugvöllurinn fer og því spyr ég: Hvernig getur dauður maður haft hag af flugvelli? Eða maður, kominn vel á níræðisaldur, ef hann lifir? Bera þessa skrif félaganna vitni um „rökstuðning og fagleg vinnubrögð"?

Með skrifum sínum mætti kannski segja að þeir félagar færi umræðuna niður á lágt plan, alveg niður á kistubotn í þessu tilfelli.

Ég hefði getað farið niður á þetta plan í grein minni og sagt sem svo að ef ákveðið yrði 2016 að leggja völlinn niður sköpuðust verkefni fyrir arkitekta og verkfræðinga í tengslum við það og að meiri líkur en minni væru á því að þeir Gunnar og Örn verði lifandi þá heldur en að ég verði lifandi átta árum síðar.

Ég hefði getað tönnlast á því í grein minni, að helstu forsvarsmenn þess að reisa byggð í Vatnsmýri væru „verkfræðingur og arkitekt með persónulega hagsmuni" í stað þess að velta upp 11 rökum og mótrökum eins og ég gerði.

Elsku vinir mínir, er ekki hægt að lyfta þessari umræðu upp á örlítið hærra plan?

Tvenn af rökum sínum endurtaka þeir; að byggð í Vatnsmýri myndi minnka akstur á höfuðborgarsvæðinu um 40 prósent (!), og í tali þeirra um þjóðhagslegan gróða kemur fram að 20 milljarðar króna myndu fást í sölu ríkislóða í Vatnsmýri, rétt eins og að enginn borgaði þessa peninga.

Gamalkunnug rök: Hesturinn ber ekki það sem ég ber, þjóðfélagið borgar ekki það sem einstaklingar og fyrirtæki borga. Þeir fara rangt með þegar þeir fullyrða að fyrir hernámið 1940 hafi ekki verið gert ráð fyrir flugvelli í Vatnsmýri.

Hið rétta er að áður en Bretinn kom var búið að gera ráð fyrir flugvelli þar, hanna hann og framkvæmdir við stækkun hans komnar vel á veg. Þeir félagar afgreiða flugvallarmálið þannig: „Þar takast á sýndarhagsmunir dreifðra byggða og bændasamfélagsins annars vegar og hins vegar meginhagsmunir hins unga borgarsamfélags."

Þarna eru þeir dálítið langt á eftir tímanum því samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu um „VBS, Virkt BorgarSamfélag" (FUA, Functional Urban Area) er VBS minnst 15 þúsund manna byggð þar sem tekur minni tíma en 45 mínútur að fara frá jaðri til miðju.

Akureyri og svæðið frá botni Eyjafjarðar norður til Ólafsfjarðar og frá Öxnadal austur í Reykjadal fellur undir þessa skilgreiningu. Það er yngra borgarsamfélag en Reykjavíkursvæðið með alls 22 þúsund manns. En nei, Gunnar og Örn eru í sama fari og þetta mál var í fyrir 60 árum og horfa á Akureyri sem „bændasamfélag" sem hafi „sýndarhagsmuni" af Reykjavíkurflugvelli.

Þessi sýn þeirra angar af gamalkunnum fordómum sem magna átök á milli suðvesturhornsins og landsbyggðarinnar og setja landsbyggðina, „bændasamfélagið", skör lægra.

Þeir standa enn í þeirri trú að miðja verslunar og þjónustu geti verið úti á nesi 5 kílómetra frá stærstu krossgötum landsins og 4 kílómetra frá núverandi þungamiðju íbúðabyggðar höfuðborgarsvæðisins.

Í grein þeirra eru síendurteknar fullyrðingar um persónulega hagsmuni mína í þessu máli, sem ekki eru til, og gefið í skyn að „Reykvíkingurinn Ómar" svíki heimabyggð sína vegna hagsmuna sem „flugvélareigandi og flugrekandi".

En höfum þetta klárt, Gunnar og Örn úr því að grein ykkar fer að stórum hluta í að skilgreina mig sem persónu: Ég tel mig í hópi þeirra sem hefur þá sýn að vera: Jarðarbúi, Íslendingur og Reykvíkingur þar sem þetta allt fer vel saman.

„Ich bin ein Berliner" sagði Kennedy við Berlínarmúrinn.

Ég hef þá sýn að sá tími komi að hver barnfæddur Reykvíkingur eins og ég geti sagt: „Ég er Eyfirðingur" eða „ég er Hornfirðingur" ef svo ber undir.




Skoðun

Sjá meira


×