Skoðun

Sársauki sálarinnar og minningar

Ingólfur Harðarson skrifar
Kæri Kristinn Jens Sigþórsson, sóknarprestur, mig langar að þakka þér fyrir að sýna alþjóð hvernig aðstæður okkar fórnarlamba er í raun og veru. Þú endurspeglar svo vel hvernig er tekið á móti okkur þegar við opnum á okkar mál. Þú útskýrir á einstakan hátt hvernig meirihluti fagfólks vinnur og ástæðuna fyrir því að við erum ekki komin lengra með meðhöndlun á afleiðingum þess sem henti okkur. Hvar málaflokkurinn er staddur.

Ég tek fyllilega undir alvarleika rangra ásakana, þær eru eins og mannsmorð.

Samfélagið okkur hefur sett upp stofnanir sem fara með rannsóknir á hverju máli fyrir sig og þeirra hlutverk er að draga fram sannleikann í málum. Það hafa orðið verulega miklar framfarir í þeim málaflokki á undanförnum árum og er það mikið fagnaðarefni þó ýmislegt eigi eftir að laga. Mál Guðrúnar Ebbu var rannsakað og niðurstaða liggur fyrir. Ég þekki Guðrúnu Ebbu og hennar sögu og ég trúi henni.

Kveikja að þessum skrifum mínum er hvernig þú fjallar um minningar, trúverðugleika þeirra og meðhöndlun. Rétt eins og líkamlegur sársauki er að segja okkur að við þurfum að kanna rót sársaukans þá er sársauki sálarinnar að segja okkur hvað við þurfum að vinna í innra með okkur. Í báðum tilfellum er eitthvað að stjórna okkar lífi og það er aldrei vel. Sársauki sálarinnar er minningatengdur. Við þurfum að meðhöndla minningarnar af kærleika og ábyrgð, þær eru brothættar og viðkvæmar.

Til þess að losna við sár og afleiðingar minninganna þurfum við að fara inn í þær, ekki til að dvelja þar heldur til að vinna með þær. Var þetta raunveruleiki eða tilfinningaleg upplifun. Ekki neitum við krabbameinssjúklingi um að skoða meinið, það er enginn munur þarna á, meinið drepur í báðum tilfellum.

Mínar minningar voru grafnar í um 40 ár. Ég var misnotaður kynferðislega, oftar en einu sinni. Minningarnar ollu mér sálarkvölum. Þetta var mein sem skaðaði mig. Til að losna við meinið þurfti ég að vinna með það. Samskiptaverkfærið við meinið er minning. Það verður að vinna með minningarnar til að komast að meininu, greina þær niður og skoða þær til að fá frelsi frá þeim. Sárin þurftu að fá að gróa og heilast til að ég gæti losnað frá sársaukanum og hin þrjú atriðin gat ég lagt frá mér.

Án þessa gat ég ekki haldið áfram með mitt líf.

Ástæðurnar fyrir því að minningar eru grafnar og/eða bældar veit ég ekki og sennilega enginn. Ég er mikið búinn að ræða við Guð um þetta. Af hverju þjáðist ég svona mikið, svona lengi? Og fleira í þeim dúr. Eins og þú veist kæri Kristinn þá bænheyrir Guð okkur þegar við tölum við hann. Svarið sem birtist mér er eftirfarandi:

„Barnið sem er grafið innra með mér þarf að geta treyst mér, í núinu, til að fara með þessi mál. Það þarf að fá að sjá og treysta því að ég geti höndlað það sem er grafið innra með því. Að ég geti unnið úr því sem henti það, komið því út úr sársaukanum og veitt því frelsi. Ég veit að það elskar mig og hefur verndað mig öll þessi ár, annars væri það búið að segja mér hvað kom fyrir það fyrir löngu. Ég ætla að gera mitt besta til að verða fær um að taka við sögu þess og veita því frelsi frá sársaukanum. Ég ætla að sýna því sömu ást og það hefur sýnt mér. Það er til lausn á öllu.“

Allir þeir sem fjalla um þessi mál eru að tala við mig og mjög mikinn fjölda fólks sem er fast inni í myrkri minninga og minnisleysis, líklega um 15% þjóðarinnar. Fólk með svo brotna sjálfsmynd að það efast um allt sem því finnst, man og gerir. Á sama tíma þjáist það af gríðarlegum sársauka sem það veit ekki hvaðan kemur, lífið virkar ekki. Kæri Guðs maður, þú ert að tala við um það bil 45 þúsund sálir, börn Guðs.




Skoðun

Sjá meira


×