Skoðun

Skylmingar með orðum

Ómar Ragnarsson skrifar
Um aldir hafa verið stundaðar svonefndar bardagaíþróttir. Sumar þeirra eru huglægar eins og til dæmis skák, þar sem aðgerðir á skákborðinu miða að því að drepa menn. Í skylmingum æfa menn sig í því að sýna fram á hvernig þeir geti rekið hver annan á hol, í íslenskri glímu er tilgangurinn að fella menn til jarðar og í júdói m.a. að „hengja“ menn. Í engri af fyrrgreindum íþróttum er litið á athæfið sem saknæmt ofbeldi.

Eitt svið íslenskrar bragíþróttar hefur falist í því að skylmast með orðum og má líta á það sem huglæga bardagaíþrótt.

Dæmi: Maður ljóðaði á Bólu-Hjálmar og sagði:

„Á þig ég þeim augum lít /

að þú líkist fífli……“,

og Bólu-Hjálmar svaraði að bragði:

„…Andskotinn með úldnum skít

á þér kjaftinn stífli!“

Báðir stóðu jafnréttir eftir; Bólu-Hjálmar þó betur sem hagyrðingur. Þetta skoðaðist meira sem íþrótt orðanna en að taka bæri það of bókstaflega.

Í bókinni Þingvísur, sem gefin var út hér um árið, mátti sjá margar svona vísur um þingmenn og voru sumar þeirra um menn sem gegndu æðstu embættum þjóðarinnar, m.a. embættum forsætisráðherra og forseta sameinaðs Alþings, samanber þessar tvær vísur:

„Leiðari ei leit ég meiri

Mammonslappaskemil

eða meiri happahemil

heldur en þennan slappa Emil.“

Og önnur vísa:

„Jón á Akri af elju stakri

áfram berst

fyrir okri og eymdarhokri

uns hann ferst.“

Ekki voru höfðuð meiðyrðamál út af þessu, heldur þessar vísur ásamt mörgum svipuðum gefnar út í bók fólki og þingmönnum til skemmtunar. Í lokuðu skemmtisamkvæmi nýlega varpaði ég í gamni ljósi á ákveðna þróun í opinberum samskiptum forsætisráðherra og forseta Íslands með því að sýna hvernig hún gæti stigmagnast með notkun ferskeytlna í stíl skylminga með orðum.

Ein vísan, sú eina sem var ekki eftir mig, komst í fjölmiðla og var ég ranglega talinnn höfundur hennar. Með birtingu hennar einnar og sér, tekinnar úr samhengi, varð það slys að líta mátti á hana sem árás mína á viðkomandi persónu. Er það í fyrsta sinn á 53ja ára opinberum skemmtikraftsferli mínum sem slíkt gerist. Ekki tjáir að fást um þetta óhapp en upplýst skal að í öll þessi ár hafa skylmingar með orðum verið hluti af dagskrá minni og tekur því varla að hætta því úr þessu.

Sumar af þessum „skylmingavísum“ hafa verið um mig sjálfan, ýmist eftir mig eða aðra og birtar með leyfi höfunda þar sem það hefur átt við. Nefni hér eina þeirra sem dæmi með leyfi höfundar og held raunar upp á hana vegna þess hvernig innihald hennar snýst snarlega úr því sem sýnist vera hól. Steindór Andersen gerði hana um mig og hún hljóðar svona:

„Hann birtu og gleði eykur

andans;

illu burtu hrindir

og þegar hann loksins fer

til fjandans /

fáum við sendar myndir.“

Vinátta okkar Steindórs hefur verið óbreytt eftir gerð þessarar vísu og væntanlega munum við báðir halda áfram að „skylmast með orðum“ okkur og öðrum til dægrastyttingar.




Skoðun

Sjá meira


×