Skoðun

Raunhæfur valkostur í Vogum

Sigrún Atladóttir skrifar
Nýlega samþykkti sveitarstjórn sveitarfélagsins Voga að aðalskipulag sveitarfélagsins yrði tekið upp og Suðurnesjalínur lagðar í jörð. Ákvörðuninni til grundvallar lá greinargerð Almennu verkfræðistofunnar sem unnin var að beiðni Suðurlinda ehf. í mars 2008 þar sem borin eru saman loftlínur og jarðstrengir en þar kemur meðal annars fram að:

l Kostnaðarhlutfall breytist verulega ef landverð og allur rekstrarkostnaður er tekinn með í reikninginn, jafnvel er hugsanlegt að kostnaður verði af svipaðir stærðargráðu.

l Veðurfar á Suðurnesjum er hagstæðara jarðstrengjum en loftlínum, m.a. vegna seltu.

l Flutningur um jarðstreng af umræddri stærðargráðu þarf ekki að valda kerfislægum vandamálum sem ekki eru vel leysanleg.

l Áhrif á gróður og jarðlög eru talin minniháttar, séu höfð vönduð vinnubrögð við verkið.

l Almenna verkfræðistofan gerir athugasemd við þá staðhæfingu Landsnets að jarðstrengur sé ekki raunhæfur valkostur.

Á bæjarráðsfundi 14. september bókaði bæjarráð einróma álit sitt um að samningur sem gerður var við Landsnet 2008, þar sem loftlínur eru leyfðar tímabundið, væri fallinn úr gildi þar sem Landsnet hefði ekki staðið við forsendur samkomulagsins. Á bæjarstjórnarfundi lagði ég fram tillögu um að breyta aðalskipulagi sveitarfélagsins á þann hátt að loftlínur sem Landsnet fyrirhugaði að leggja yrðu lagðar í jörðu. Tillagan var lögð fram með fullri vitund oddvita samstarfsflokksins sem m.a. las yfir tillöguna fyrir fundinn.

Nú þegar hefur verið samþykkt að leggja línur í jörð í Hafnarfirði, í gegnum Reykjanesbæ að fyrirhuguðu álveri í Helguvík og að væntanlegum netþjónabúum í Reykjanesbæ og Sandgerði (skv. Heimasíðu Landnets). Ekki er gert ráð fyrir því að orkufrek starfsemi í Vogum taki við orku frá strengnum en samt sem áður má vænta þess að íbúar sveitarfélagsins þurfi að greiða í raforkuverði þann kostnað sem Landsnet vill meina að bætist við raforkuverð vegna jarðstrengja. Því má spyrja sig hvers vegna íbúar í sveitarfélaginu Vogum eiga að bera aukinn raforkukostnað af jarðstrengjum í nágrannasveitarfélögunum en ekki í sínu eigin. Eða megum við vænta þess að raforkuverð verði lægra í sveitarfélaginu Vogum en annars staðar á Suðurnesjum ef hagsmunaaðilum tekst að kúga sveitarstjórnina til hlýðni?




Skoðun

Sjá meira


×