Skoðun

„Sálarlaus er sá, sem kvelur dýr“

Árni Stefán Árnason skrifar
Titill þessarar greinar er tilvitnun í orð hins mikla vísindamanns og heimspekings Johann Wolfgang von Goethe, sem nýlega var kjörinn merkasti Þjóðverji allra tíma af lesendum tímaritsins Bild. Tilefni þess að vísað er í orð hans eru nýleg tíðindi um hrottalega meðferð á hundi á höfuðborgarsvæðinu.

Er dýravernd á Íslandi í dverglíki?11-13. ágúst sl. fjallaði fréttastofa RÚV um tilkynningar sem borist höfðu yfirvöldum um slæma meðferð á hundi. Var hundurinn að lokum fjarlægður af heimili sínu af borgara, sem ofbauð meðferð dýrsins. Um var að ræða eitt alvarlegasta dýraníð, sem borist hefur á borð yfirvalda að þeirra eigin sögn en því ekki sinnt þar nema í litlum mæli. Í viðtali við deildarstjóra hjá Umhverfisstofnun kom fram að stofnunina skorti bæði mannafla og fé til að sinna tilkynningum um grun á slæmri meðferð gæludýra. Umhverfisráðherra hefur ekki brugðist við þessum tíðindum og á meðan má gera ráð fyrir að fjöldi dýra þjáist að ástæðulausu en tilkynningar af þessum toga berast yfirvöldum reglulega. Stjórnarmaður Dýraverndarsambands Íslands (DÍ) telur að fjöldi tilkynninga endurspegli þó aðeins brot af hinum raunverulega harmleik, sem á sér stað hjá gæludýrum. Hann sagði í útvarpsþætti nýlega „Okkur er tilkynnt um mjög slæma vanhirðu á dýrunum, slæma líkamlega meðferð, fólk ber dýrin sín og sparkar í þau.“

Athafnaleysi yfirvaldaFjöldi tilkynninga barst til ýmissa yfirvalda vegna meðferðarinnar á fyrrgreindum hundi, hann þjáðist mánuðum saman. Viðbrögð voru í lágmarki við að losa dýrið undan þeirri áþján, sem vitni voru að og ekkert var aðhafst til að svipta viðkomandi leyfi til að halda hund. Nægar lagaheimildir eru þó til slíks en algert sinnuleysi er ríkjandi. Vetur er nú framundan og vísbendingar eru um að sami aðili hafi nú eignast annan hund, sem gera má ráð fyrir að bíði sama vítisdvöl og vosbúð í vetrarveðrum og tveggja fyrri hunda sem hann batt úti klukkustundum saman án aðhlynningar og skjóls. Sá fyrri gafst upp, hinum síðari var bjargað af einstaklingi, sem taldi það borgaralega skyldu sína að grípa inn í þegar fullreynt var að Umhverfisstofnun, héraðsdýralæknir og hundaeftirlit myndu bregðast þrátt fyrir skýr fyrirmæli í lögum um athafnaskyldu.

Misjafn mat fjölmiðlaAðrir fjölmiðlar en RÚV sýndu framangreindu máli engan áhuga. Stuttu eftir umfjöllun RÚV gerði einn fjölmiðill fegurðarsýningu Hundaræktarfélags Íslands góð skil í heilli opnu og drjúgum hluta baksíðu. Ekki er síður mikilvægt að dýraníð fái umfjöllun eins og fegurri hliðar hundahalds. Skoðun margra er að nafngreina eigi þá aðila, sem ítrekað verða uppvísir að illri meðferð á dýrum eins og átti við í fyrrgreindu máli. Þannig má gera tilraun til að koma í veg fyrir að dýr lendi í klóm slíkra einstaklinga.

Fjölmiðlar telja það yfirleitt fréttnæmt þegar svo illa vill til að hundur bítur mann og er sú umfjöllun þá oftast á einn veg, bezta vini mannsins í óhag. Því má halda fram að enginn hundur vilji bíta mann og að þar að baki liggi aðrar og oft miklu flóknari ástæður sem er ekki vettvangur þessa pistils. Við þessar aðstæður skapast óþægilegt réttarástand fyrir hundaeigendur, réttaróvissa verður til hjá þeim. Höfundur mun fjalla um það í annarri grein innan tíðar.

Dýraverndarsamband ÍslandsDýraverndarsinnar óskuðu eftir því að taka málið upp innan DÍ og vekja athygli umhverfis- og innanríkisráðherra, yfirdýralæknis, lögreglu og fjölmiðla á því ástandi sem ríkir hér á landi í dýravernd. Formaður DÍ neitaði að taka málið fyrir á félagsfundi og gramdist það mörgum. Taldi hann mikilvægara að vekja athygli á málinu innan Dýraverndarráðs. Að mati höfundar var það misráðið. Hlutverk Dýraverndarráðs að lögum er að koma saman á nokkurra mánaða fresti og vera ráðherra til ráðgjafar um mikilvæg dýraverndarmálefni. Árangur slíks er misjafn.

Eflum dýraverndarstarfÉg hvet alla þá sem vilja láta sig dýravernd varða að ganga í lið með málleysingjunum. Þörfin hefur aldrei verið brýnni. Efla þarf, breyta og bæta starf og stjórnarhætti DÍ sem byggt er góðum og traustum grunni með almenna dýravernd að leiðarljósi en kraftur þess hefur að margra mati dvínað. Vitnisburður um það eru fátíðir og fámennir fundir. Styrkur þess áður fyrr var slíkur að fyrir tilstuðlan þess voru sett fyrstu dýraverndarlögin á Íslandi 1914.

Blása þarf nýju lífi í barráttu DÍ og leikskipulagið þarf að taka á sig nútímalega mynd. DÍ er fyrirliði landsliðs íslenskrar dýraverndar sem þarf að vera í formi og forystu en ekki á hliðarlínu eða jafnvel utan vallar. Erlendis eru félagar okkar áratugum á undan okkur. En þrátt fyrir að lítið hafi borið á athöfnum Dýraverndarsambandsins í þessum efnum þá er sá félagsskapur engu að síður upphafsskref fyrir alla sem vilja leggja málefninu lið. Honum má kynnast á dyravernd.is. Kveikja þarf bál í þeim neista sem ennþá logar.

Dr. Albert Schweitzer Nóbelsverðlaunahafi sagði: Þegar dýr þjást berum við öll ábyrgð.- Berjumst!




Skoðun

Sjá meira


×