Skoðun

Frjálsar og án ótta

Regína Bjarnadóttir skrifar
Vissir þú að konur á aldrinum 15-44 ára eru líklegri til að verða fyrir nauðgun og heimilisofbeldi en að fá krabbamein, malaríu eða lenda í umferðarslysi samanlagt? Vissir þú að um allan heim fá konur lægri laun en karlar? Vissir þú að 70% þeirra sem búa við sára fátækt eru konur? Samt bera þær nánast alltaf ábyrgðina á því að gefa börnum sínum að borða.

Í dag er upphaf fjáröflunarviku UN Women á Íslandi. Markmiðið er að hvetja Íslendinga til að standa með „systrum“ sínum víða um heim með því að skrá sig í Systralag UN Women. Þema fjáröflunarvikunnar er fiðrildið; markmiðið er að hafa fiðrildaáhrif héðan frá Íslandi því eitthvað lítið, eins og vængjasláttur fiðrilda, getur haft umfangsmikil áhrif á veðurkerfi hinum megin á hnettinum. Þetta snýst um að styrkja konur og stúlkur víðs vegar um heim. Draumur okkar er að veita þeim byr undir báða vængi.

Verkefni á sviði þróunarmála og jafnréttis kynjanna eru ærin. Hvorki útrýming fátæktar né aukið jafnrétti gerist af sjálfu sér. Þetta eru verkefni sem krefjast tíma, fjármuna og samvinnu margra aðila og mega síst gleymast þegar skórinn kreppir. Þitt framlag mun efla konur til menntunar, atvinnu og lífs án ofbeldis. Þitt framlag mun aðstoða konur til þess að þær geti séð fyrir börnunum sínum, verið sjálfstæðir, fullgildir borgarar og haft áhrif á eigið líf og samfélag.

UN Women styður íslenska kvennabaráttu með því að taka þátt í kvenréttindabaráttu á alþjóðavísu. Í huga okkar er um sömu baráttu að ræða. UN Women á Íslandi vill leggja sitt af mörkum til að allar konur fái tækifæri til að flögra um eins og fiðrildi á eigin forsendum, frjálsar og án ótta við ofbeldi. Taktu þátt í baráttunni með okkur og skráðu þig í Systralag UN Women.




Skoðun

Sjá meira


×