Skoðun

Hingað og svo miklu, miklu lengra

Ingibjörg Kristleifsdóttir skrifar
Það vita allir hvernig staðan í rekstri samfélagsins er og leikskólakennarar hafa lagt sitt af mörkum þegar rekstraraðilar hafa skorið niður. Leikskólakennarar taka á sig höggin vegna fækkunar stjórnenda, skerðingar á afleysingu, niðurskurðar í kaupum á námsgögnum og annarra kreppuviðbragða og nota alla sína orku til þess að forða því að áhrifin lendi á börnunum.

Að það skuli þurfa að verja sjálfsvirðingu stéttarinnar og gæði leikskólastarfs með því að boða til verkfalls til að ná fram sanngjörnum kröfum er hreint með ólíkindum. Það eru engin rök fyrir því að leikskólakennarar búi við verri kjör en aðrir kennarar. Dýrmæti viðfangsefnisins og langtímaáhrif fyrir samfélagið eru jafnmikil eða meiri í leikskólum en á öðrum skólastigum. Getur það verið að einhvern langi til þess að segja það hreint út að leikskólastarf snúist um geymslu fyrir börn? Nei, við erum komin miklu lengra í hugsun en það. Ráðamenn, atvinnurekendur og að sjálfsögðu foreldrar vita jafn vel og skólafólk að framtíðin býr í leikskólanum og að það er skylda okkar að bjóða aðeins upp á það besta sem þekkist í aðbúnaði og menntun.

Við verðum og eigum að velja leið til betri framtíðar. Kennarar í leikskólum jafnt og á öðrum skólastigum eiga að hafa bestu menntun sem völ er á og það á að gera ýtrustu kröfur um mannkosti og hæfileika þeirra sem komast að í kennaranám. Til þess verða kjör og starfsumhverfi að vera framúrskarandi góð. Má nefna til samanburðar að í Finnlandi, þar sem kennarastarfið nýtur verðskuldaðrar virðingar, komast að í kennaranám einungis 15% þeirra sem sækja um.

Fyrsta skrefið á leið til betri framtíðar er að semja við leikskólakennara um þær hógværu kröfur sem þeir gera og halda síðan strax áfram við að finna leiðir til þess að gera enn betur.




Skoðun

Sjá meira


×