Skoðun

20 prósenta leiðin

Guðmundur Örn Jónsson skrifar
Eitt af helstu afrekum síðustu ríkisstjórnar sjálfstæðis- og framsóknarmanna er heimsmet þeirra í aukningu ójöfnuðar, sem þeir náðu fram í gegnum skattkerfið. Það er því skiljanlegt að aðgerðir síðari ríkisstjórna við að vinda ofan af þeim ójöfnuði mæti mikilli andstöðu í þeirra röðum. Ein leiðin í andstöðunni, og baráttu fyrir auknum ójöfnuði, kemur fram í hinni svokölluðu 20% leið.

Hún byggist á því að 20% skulda heimilanna, samtals um 285 milljarðar króna, séu felldar niður og eru rökin fyrir leiðinni óskiljanleg en kennd við hagfræði. Undirritaður hefur aldrei heyrt um nokkra aðgerð hjá nokkurri vestrænni þjóð sem myndi auka ójöfnuð meira, enda myndi tekjulægri helmingur hjóna fá 60 milljörðum króna lægri niðurfellingu skulda en sá tekjuhærri. Af sömu ástæðu skilur undirritaður aðdáun sjálfstæðis- og framsóknarmanna á leiðinni.

Niðurfelling skulda er jafnframt niðurfelling eigna þeirra sem eiga skuldirnar, en í þessu tilfelli eru það aðallega ríkið og lífeyrissjóðir. Lífeyrissjóðirnir njóta, eins og aðrir, verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar og myndu auðveldlega endurheimta fjármuni sína frá ríkinu í réttarsal. Þannig myndi kostnaðurinn af 20% leiðinni lenda að öllu leyti á ríkinu og koma fram í verri heilsugæslu, verri menntun og hærri sköttum.

Á sínum tíma juku sjálfstæðis- og framsóknarmenn ójöfnuð í gegnum skattkerfið, og með samvinnu Hagstofunnar tókst að gera það með leynd. Nú er ætlunin að gera það sama undir þeim formerkjum að verið sé að hjálpa þeim verst settu. Því er 20% leiðin mjög lýsandi fyrir siðferði þeirra sem berjast fyrir leiðinni.




Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×