Skoðun

Gjörbreytt frumvarp innanríkisráðherra vekur furðu

Félag um foreldrajafnrétti harmar þær breytingar sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur lagt fram til breytinga á barnalögum. Frumvarpið var fullunnið í ráðherratíð Rögnu Árnadóttur, en þar var tekið nokkurt tillit til alþjóðlegrar þróunar á barnarétti og þeirra tillagna sem tvær stórar íslenskar nefndir um málið lögðu einróma til. Í frumvarpi Rögnu var lagt til að dómarar gætu dæmt foreldra til að fara sameiginlega með forsjá barns, teldu þeir það barni fyrir bestu. Allar aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við hafa slíka heimild og engin þeirra hefur afnumið slíka heimild við endurmat í ljósi áratuga reynslu. Ákvæðið þykir setja niður deilur foreldra og auka sáttfýsi þeirra, enda ljóst að hvorugt þeirra fer sigurvisst í dómsal. Ögmundur hefur nú fellt út þessa dómaraheimild og geta þá íslenskir dómarar einungis dæmt öðru foreldrinu forsjá og þar með svipt hitt foreldrið forsjá barns. Þar með segir háttvirtur dómsmálaráðherra að hann beri ekki trausts til íslenskra dómara að dæma mildasta úrræðið þótt það sé barninu fyrir bestu.

Þar sem frumvarpið var skrifað utan um dómaraheimildina verða fjölmargar aðrar breytingar algjörlega marklausar og frumvarpið í heild sinni til óþurftar. Ný sáttameðferðarúrræði fyrir tugi eða hundruð milljóna verður sóun á almannafé án dómaraheimildar. Öll merki eru um að Ögmundur sé að ganga erinda öfgahópa innan kvenréttindahreyfingarinnar sem ætíð hafa barist gegn öllum breytingum í átt að jafnrétti og almennri réttarstöðu íslenskra feðra og barna í það horf sem þekkist hjá nágrannaþjóðunum. Breytingar Ögmundar á áður vel unnu frumvarpi Rögnu eru dæmi um ömurlega stjórnsýslu þar sem lítill og einangraður hópur sérhagsmunaaðila virðist hafa náð fram óeðlilegum og víðtækum geðþóttabreytingum sem ganga á skjön við þverfaglegt mat sérfræðifólks. Þau rök Ögmundar að einhver hafi verið óánægður í Svíþjóð og hugsanlega eigi að skrifa skýrslu í Danmörku eru léttvæg, enda ljóst að í sifjamálum af þessu tagi verða aldrei allir sáttir. Horfa ber frekar til þess að þjóðþing allra þeirra landa sem við berum okkur saman við hafa á undanförnum 4-5 árum endurskoðað þessi mál með þingnefndum og mikilli sérfræðivinnu og komist að þeirri niðurstöðu að halda áfram með dómaraheimild. Má þar nefna Svía 2006, Dani 2007 og Norðmenn 2009. Allar þjóðirnar gáfu út stórar og viðmiklar skýrslur um málið og niðurstaðan var einhlít: Annað foreldrið á ekki að ráða því eitt hvort barn sé í sameiginlegri forsjá beggja, enda verður þá enginn vilji til sátta.

Frumvarp þetta hlýtur að taka breytingum í meðförum þingsins og dómaraheimildin að fara inn aftur þar sem æðstu stofnanir Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa allar samþykkt ályktanir á síðustu árum um að dómarar á Íslandi eigi að hafa heimild að dæma sameiginlega forsjá.




Skoðun

Sjá meira


×