Skoðun

Útgerð til eins árs?

Páll Steingrímsson skrifar
Þorvaldur Gylfason fer með hagfræðina inn í nýjar víddir í grein sem hann skrifar í Fréttablaðið þann 4. ágúst sl. Ég ætla ekki að elta ólar við hugaróra hans og samsæriskenningar um svikula bankastjóra og leigutaka en undrast þó að hann leggi að jöfnu aðstöðu manns sem leigir sér bíl til fimm daga og útgerðarmanns sem stofnar til verulegra skuldbindinga með kaupum á skipi og veiðiheimildum með framtíðarrekstur í huga.

Ég er að vísu aðeins sjómaður en fæ ég ekki með nokkru móti skilið þau rök hans að „gætinn bankastjóri“ myndi aðeins lána útgerðarmanni fyrir kaupum á skipi en ekki kvóta. Rökin eru þau að kvótinn yrði uppveiddur eftir árið og einskis virði – rétt eins og þar með sé allur fiskur í sjónum uppurinn og aldrei verði veitt meira!

Hið augljósa er að „gætinn bankastjóri“ myndi alls ekki lána fyrir skipinu án kvóta því rekstrargrundvöllur útgerðarinnar væri þá enginn. Allra síst til eins árs. Hitt má svo líka benda á að með sömu rökum prófessorsins verður ekki bara kvótinn verðlaus eftir árið heldur skipið líka. Hvað á að gera við fiskiskip án aflaheimilda í heimi þar sem fiskiskip eru þegar allt of mörg?

Það er ekki að ástæðulausu að áhersla hefur verið lögð á mikilvægi þess að aflaheimildum sé úthlutað til langs tíma. Útgerð krefst mikillar fjárfestingar og áhættuþættirnir eru margir. Stöðugt rekstrarumhverfi og skýrar leikreglur eru lykilatriði. Ég veit ekki með Þorvald Gylfason en ég þekki engan sem væri svo vitlaus að leggja upp í útgerð með kaupum á skipi og aflaheimildum með bankaláni til eins árs!




Skoðun

Sjá meira


×