Viðskipti innlent

Selja þekkingu á sjávarútvegi

Nafni fyrirtækisins Markó Partners var nýverið breytt en það hét áður KE-Partners.
Nafni fyrirtækisins Markó Partners var nýverið breytt en það hét áður KE-Partners.
Kanadíska sjávarútvegsfyrirtækið Cooke Aquaculture festi fyrir helgi kaup á spænska fiskeldis-fyrirtækinu Culmarex. Íslenska ráðgjafarfyrirtæki Markó Partners var Cooke til ráðgjafar við kaupin.

Markó Partners er tveggja ára gamalt fyrirtæki sem sérhæfir sig í ráðgjöf til sjávarútvegsfyrirtækja. Framkvæmdastjóri Markó Partners er Kjartan Ólafsson sem leiddi áður sjávarútvegsteymi Glitnis.

„Þetta verkefni staðfestir í okkar huga að þessi íslenska sérfræðiþekking getur verið útflutningsvara. Við höfum haft trú á því lengi og það hefur skilað sér í góðri verkefnastöðu hjá okkur,“ segir Kjartan.

Kaup Cooke Aquaculture á Culmarex voru að sögn Kjartans viðskipti upp á rétt tæpa 10 milljarða króna en Culmarex er eitt stærsta fiskeldisfyrirtæki Spánar.

Markó Partners hefur haft nóg fyrir stafni undanfarin misseri. Nýverið ráðlagði fyrirtækið bandaríska fjárfestingarfyrirtækinu Paine & Partners við kaup á norska fyrirtækinu Scanbio Marine Group. Meðal annarra fyrirtækja sem Markó Partners hefur starfað með má nefna Highliner Fine Foods, Clearwater Seafoods og Samherja.

- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×