Skoðun

Tóbaksfíknin

Valgerður Rúnarsdóttir skrifar
Já, hún er ekkert lamb að leika sér við. Það þekkja allir sem hafa reykt lengur en þeir vildu. Enginn ætlar sér að vera „tóbaksfíkill“ þegar hann verður stór… en mestar líkur eru á því, að ef einn ungur hefur ánetjast tóbaki, muni hann eiga erfitt með að hætta þegar hann hugsar sér það. Einkennilegt ! Að viljinn ráði því bara ekki… eða hvað ? Nei, það er nefnilega skiljanlegt að hann eigi erfitt með að hætta. Og ef hann nær að hætta, þá er það einnig skiljanlegt að hann eigi erfitt með að byrja ekki aftur. Það er einmitt fíknin sem ræður því, og hún skýrist af taugalífeðlisfræðilegum breytingum í heila. Þetta sér maður ekki fyrir, þegar fiktið byrjar. En þetta vita þeir sem markaðssetja tóbakið.

Langflestir þeirra sem reykja eru fíknir í tóbak. Fíknsjúkdómur er alvarlegur og hefur alvarlegar afleiðingar, sem sjást þó ekki strax og oft ekki fyrr en um seinan. Mikilvægast er að fyrirbyggja nýja tóbaksneytendur fyrir alla framtíð. Meðferð og inngrip til að hætta þurfa yfirvöld að gefa miklu meiri gaum. Þeir sem hafa endurtekið reynt að hætta og fallið, þurfa meiri meðferð og stuðning. Til þess að veita það, þarf fjármagn og skilning. Þekkingin og menntunin er til í heilbrigðisgeiranum til að sinna því.

Í mínu starfi sem fíknlæknir hjá SÁÁ hitti ég marga tóbaksfíkla, því tóbaksfíkn er náskyld fíkn í áfengi og önnur vímuefni. Nær allir sem koma til meðferðar vegna áfengis og annarra vímuefna, vilja hætta að reykja. Langflestir hafa hætt í einhvern tíma eða reynt að hætta. Meðferð við tóbaksfíkn er uppbyggð á sama hátt og meðferð við vímuefnafíkn. Fyrst er að koma sér frá fíkniefninu og oft eru fráhvörf í byrjun. Eftir það er viðkomandi „hættur“, og þá er það mikilvægasta af öllu, að vinna gegn falli eftir margvíslegum leiðum til lengri tíma, helst um alla framtíð. Ef fall verður, þá þarf að grípa til aðgerða strax á ný og bæta í meðferðina og bataáætlunina.

Ef hægt er að koma í veg fyrir að unglingarnir okkar byrji tóbaksneyslu, þá er björninn unninn. Reykingafólk vill líka hindra að þeirra börn byrji að reykja. Þeir sjálfir þurfa jafnframt skilning, svigrúm og aðstoð til að eiga við sína tóbaksfíkn.

Fikt í tóbaksneyslu er ekki sama og tóbaksfíkn. En fikt getur mjög fljótt leitt til þeirra líffræðilegu breytinga sem heldur einstaklingnum í hlekkjunum svo hann á erfitt með að hætta þótt hann vilji.

Allar aðgerðir til að minnka fikt verða okkur til góða. Við höfum staðið okkur vel á litla Íslandi í að minnka aðgengi og séð af því góðan árangur. Nú sýnast mér enn meiri aðgerðir vera í aðsigi á næstu árum, með nýrri þingsályktunartillögu, með enn meiri stuðningi við börnin okkar í framtíðinni. Það er vel.




Skoðun

Sjá meira


×