Skoðun

Hjálpum. Núna.

Sameinuðu þjóðirnar hafa nú formlega lýst því yfir að hungursneyð ríki í Sómalíu. Í fréttum heyrum við af mestu þurrkum í 60 ár. Myndir berast af aðframkomnu fólki sem nú berst yfir landamærin til Eþíópíu og Keníu.

Þetta neyðarástand kemur ekki skyndilega eða óvænt. Þetta er ekki jarðskjálfti. Alþjóða Rauði krossinn hefur varað við yfirvofandi neyðarástandi í meira en tvö ár. Í desember 2008 sendu samtökin út neyðarkall og leituðu til alþjóðastofnana um stuðning við að koma í veg fyrir harmleik sem þá var talinn vera í uppsiglingu í Eþíópíu, Sómalíu og Keníu.

Ætlunin var að bregðast við neyðinni sem þá var að myndast og grípa til margvíslegra aðgerða til að koma í veg fyrir ennþá meiri neyð. Viðbrögðin voru nánast engin.

Í janúar á þessu ári sendi keníski Rauði krossinn út neyðarkall vegna uppskerubrests, sem þá var orðin staðreynd. Viðbrögðin voru lítil. Alþjóða Rauði krossinn heldur úti umfangsmiklu hjálparstarfi í Sómalíu við ákaflega erfiðar aðstæður. Erfiðlega hefur gengið að fjármagna starfið. Nú er komin mynd á neyðina og það er mynd af börnum sem koma í flóttamannabúðir nær dauða en lífi af hungri. Ákvörðun Sameinuðu þjóðanna um að hungursneyð ríki í tveimur héruðum Sómalíu, Bakool og Neðra-Shabelle, staðfestir það sem þegar var orðið ljóst.

Margar ástæður eru fyrir þessari hungursneyð: Þurrkar, borgarastyrjöld, þjóðfélagsbreytingar. Það skiptir ekki máli nú. Það eina sem skiptir máli nú, þegar börn deyja úr hungri, er að koma til hjálpar.

Rauði krossinn er á staðnum í Sómalíu. Núna.

Samtökin dreifa mat, einkum til barna, frá 39 heilsugæslustöðvum og 18 matardreifingarstöðvum. Verið er að fjölga færanlegum teymum til að ná enn þá víðar. Rauði kross Íslands styður þetta starf.

Söfnunarsími Rauða krossins er 904 1500 til að gefa 1.500 krónur sem dregnar eru af næsta símreikningi.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×