Viðskipti innlent

Sala á steinolíu hefur tífaldast á sex árum

Steinolía á kaggann. Þessi dældi steinolíu á bílinn sinn á bensínstöð N1 á Ártúnshöfða í gær. Það er töluvert ódýrara en að fylla hann af dísil og áhöld eru um hvort bílnum verður nokkuð meint af.
Steinolía á kaggann. Þessi dældi steinolíu á bílinn sinn á bensínstöð N1 á Ártúnshöfða í gær. Það er töluvert ódýrara en að fylla hann af dísil og áhöld eru um hvort bílnum verður nokkuð meint af. Mynd/HAG
Sala á steinolíu hefur snaraukist á undanförnum árum. Í fyrra var hún tíu sinnum meiri en árið 2005. Mjög hefur færst í vöxt að steinolía sé notuð á eldri dísilbíla, ýmist hrein eða blönduð í dísil, enda er lítrinn af steinolíu tugum króna ódýrari en dísilolíulítrinn.

Í tölum frá Flutningsjöfnunarsjóði, sem Fréttablaðið hefur aflað sér, má sjá að salan á steinolíu tók gríðarlegan kipp á milli áranna 2007 og 2008, þegar hún nálega fimmfaldaðist á einu ári. Þetta hefur verið sett í samhengi við verðhækkanir á dísilolíu á árinu 2007, en það ár varð hún í fyrsta sinn dýrari en bensínið.

Síðan hefur salan enn aukist og var á síðasta ári yfir 1.120 þúsund lítrar, samanborið við 118 þúsund lítra árið 2005. Heimildir Fréttablaðsins herma að vísbendingar séu um að sala hennar hafi enn aukist það sem af er þessu ári.

Hægt er að nálgast steinolíu í dælum á bensínstöðvum og svo virðist sem jafnt megi nota hana í stað dísilolíu á dísilbíla sem ekki eru af allra nýjustu gerð. Nýlegustu dísilvélar hafa búnað sem ekki ræður við steinolíuna. Þeir sem Fréttablaðið ræddi við sögðu að viss áhætta væri engu að síður fólgin í því að nota steinolíuna á eldri dísilbíla, enda kynni það að slíta vélunum hraðar en ella.

Ekkert olíugjald leggst á steinolíu enda er hún ekki ætluð sem eldsneyti fyrir ökutæki. Olíugjaldið er 55 krónur á hvern lítra svo það er ljóst að töluverður sparnaður hlýst af því að nota hana í stað dísilolíunnar eða með henni. Þrátt fyrir að ekkert olíugjald leggist á hana er notkun hennar lögleg, ólíkt litaðri dísilolíu sem einnig er undanþegin olíugjaldi.

stigur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×