Skoðun

Er ESB betra en EES?

Baldur Þórhallsson skrifar
Nokkuð hefur verið gagnrýnt að við Íslendingar höfum litla sem enga möguleika á að hafa áhrif á lagasetningu EES. Því er haldið fram að þetta sé mjög ólýðræðislegt. Þá bregður svo við að andstæðingar aðildar Íslands að ESB keppast við að lofsyngja EES-samninginn. Í þessu er nokkur þversögn.

Ef löggjöf ESB sem við tökum yfir vegna aðildar að EES er svo góð eins og andstæðingar ESB-aðildar halda fram þá hlýtur að vera enn betra fyrir okkur að vera innan sambandsins þar sem við getum haft áhrif á hana. Auk þess sem við getum haft frumkvæði að lögum. Aðild að ESB gefur okkur einnig kost á því að taka upp evru og stórbæta bæði lífskjör í landinu og stöðu atvinnulífsins.

Ein mesta breytingin sem orðið hefur á stjórnskipun Íslands átti sér stað með gildistöku samninganna um EES og Schengen. Skipulag ákvarðanatöku í samningunum er þannig úr garði gert að íslenskir stjórnmálamann geta ekki haft áhrif á þau lög sem við verðum eigi að síður að taka yfir. Ísland hefur enga aðkomu að ráðherraráðinu og Evrópuþinginu sem eru löggjafarsamkomur ESB. Ísland tekur yfir alla löggjöf þeirra sem varðar EES og Schengen. Innanríkisráðherrann hefur að vísu sæti við borð ráðherraráðs innanríkismála sem fjalla um Schengen en hann má ekki greiða atkvæði. Forsætisráðherra Íslands á ekki sæti í leiðtogaráði ríkja ESB sem tekur allar helstu ákvarðanir um framtíð ESB og þar með EES. Þar eru til dæmis teknar ákvarðanir um fjölgun aðildarríkja sambandsins og þar með ríkja EES. Ísland hefur heldur ekki fulltrúa í Efnahags- og félagsmálanefnd ESB né Byggðanefnd sambandsins hvað þá fulltrúa í Seðlabanka Evrópu.

Ríki sem vill láta taka sig alvarlega og líta á sig sem alvöru leikmann á alþjóðavettvangi getur ekki búið við samninga eins og EES og Schengen. Við stöndum utangarðs, án nokkurra bandamanna, án nokkurs skjóls þegar á reynir eins og dæmin sanna. Við verðum að bindast okkar bestu nágrönnum nánum vina- og tryggðarböndum með þeim samningum sem best bjóðast hverju sinni.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.