Skoðun

Auðlind í örum vexti

Einar Örn Jónsson skrifar
Undanfarin ár hefur Skógræktarfélag Íslands staðið fyrir atvinnuátaksverkefni í samstarfi við samgönguráðuneytið (nú innanríkisráðuneytið), staðbundin skógræktarfélög og sveitarfélög. Ráðist var í verkefnið í kjölfar efnahagshrunsins 2008 þegar ljóst var að stórfellt atvinnuleysi blasti við íslensku þjóðinni. Með því vildu skógræktarfélögin leggja sitt af mörkum til atvinnusköpunar jafnframt því að stuðla að umhirðu og ræktun útivistarsvæða fyrir almenning.

Ávinningur fyrir allaAtvinnuátakið hefur gefið góða raun og í krafti þess hefur tekist að skapa fjölda atvinnulausra og námsmanna vel þegna vinnu á einhverjum mestu atvinnuleysistímum sem þjóðin hefur upplifað. Um leið hefur verið unnið að mörgum brýnum verkefnum á skógræktarsvæðum víða um land, allt frá gróðursetningu til grisjunar. Skógarnir liggja flestir í nágrenni byggðar og eru vinsæl útivistarsvæði, bæði meðal heimamanna og gesta. Það njóta því allir góðs af aukinni umhirðu skóganna og betri aðstöðu.

Annar ávinningur af verkefninu er einmitt sá að fyrir tilstilli þess uppgötva margir skemmtilega skógarreiti í nágrenni við heimabyggð sína. Þeir sem ráðast til starfa kynnast ekki aðeins hefðbundnum skógræktarstörfum heldur læra þeir að meta skóginn sem útivistarsvæði og náttúruvin. Þetta fólk sem er upp til hópa ungt að árum binst þannig skógarreitunum sterkum böndum og kemur til með að njóta þeirra um ókomna framtíð ásamt börnum sínum og barnabörnum. Það er mikils virði fyrir alla sem vinna að því að efla og bæta skógarmenningu á Íslandi.

Átak sem borgar sigSíðast en ekki síst er með átakinu lögð rækt við þá miklu og margþættu auðlind sem felst í skógum landsins. Skógar gegna mikilvægu hlutverki í vistkerfinu, hamla gegn gróðureyðingu, stuðla að bættum vatnsbúskap og binda koltvísýring úr andrúmslofti svo fátt eitt sé nefnt. Af þeim má jafnframt hafa umtalsverðar nytjar í formi matsveppa, berja, jólatrjáa, viðar og viðarafurða. Það margborgar sig því að hugsa vel um þessa auðlind okkar. Hún á aðeins eftir að vaxa.




Skoðun

Sjá meira


×