Skoðun

Spurningin er: af hverju?

Robbie Marsland skrifar
Síðastliðin átta ár hefur Alþjóðadýraverndunarsjóðurinn (IFAW) á varfærinn hátt reynt að skapa umræðu um skynsemi hvalveiða við Ísland. Að undanförnu hefur umræðan þó einkum beinst að stjórnendum Keflavíkurflugvallar og skynsemi í auglýsingabirtingum.

Í mars síðastliðnum höfðum við samband við ISAVIA og útskýrðum fyrir markaðsdeild þeirra hugmynd okkar að auglýsingum, í samstarfi við Hvalaskoðunarsamtök Íslands, sem snérist um það að hvetja erlenda ferðamenn til að borða ekki hvalkjöt.

Sala á hvalkjöti til erlendra ferðamanna virðist fara vaxandi. Þetta er undrunarefni því í skoðanakönnunum lýsir mikill meirihluti þeirra sig algjörlega andvígan hvalveiðum. Við teljum að ferðamennirnir standi í þeirri trú að það breyti engu að smakka hvalkjöt, á meðan á dvöl þeirra stendur.

Því settum við af stað þetta verkefni til að upplýsa ferðamenn um að hvalveiðar eru ekki hefðbundin atvinnugrein á Íslandi; 95% Íslendínga borða ekki reglulega hvalkjöt (Gallup könnun, júní 2010) og að í hvert skipti sem einhver borðar hvalkjöt að þá er viðkomandi að stuðla að hvaladrápum.

ISAVIA sýndi auglýsingunum áhuga og fulltrúi þeirra lýsti ánægju sinni með titil átaksins og inntak þess. Samningar voru undirritaðir, greiðslur inntar af hendi og auglýsingarnar settar upp í farangurssal flugstöðvarinnar 4. júní. Þann sama dag héldum við lítið hóf í tilefni átaksins í Reykjavíkurhöfn mitt á milli hvalaskoðunarbáta og hvalveiðibáta Kristjáns Loftssonar. Ræðumenn í hófinu voru framkvæmdastjóri Ferðamálaráðs, formaður hvalaskoðunarsamtaka Íslands og undirritaður.

Fyrir samtök eins og IFAW sem starfa á alþjóðavettvangi að ýmsum velferðarmálum dýra og umhverfisvernd hefur það hingað til ekki verið vandamál að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Sem dæmi má nefna að einmitt núna er IFAW með auglýsingaskilti á Schipol-flugvelli í Amsterdam þar sem ferðamenn eru hvattir til að kaupa ekki minjagripi sem búnir eru til úr villtum dýrum og á flugvellinum í Jersey erum við með fjölda augýsinga uppi um hvalavernd.

Það kom okkur því mjög á óvart að um það bil tveimur vikum eftir að auglýsingarnar voru settar upp í flugstöðinni í Keflavík hringdi framkvæmdastjóri ISAVIA og tilkynnti okkur að honum líkaði ekki auglýsingarnar og að þeim yrði að breyta ellegar fjarlægja. Hrefnuveiðimaður hafði víst kvartað undan þeim.

Lögmenn okkar sendu bréf til ISAVIA og óskuðu skýringa á þessu áður en til hugsanlegra aðgerða kæmi af hálfu flugstöðvarinnar. Það bréf var hundsað og auglýsingarnar teknar niður að okkur forspurðum 24. júní. Fimm dögum síðar barst okkur loks bréf frá lögmanni ISAVIA þar sem fram kom að félagið teldi sig ekki hafa samþykkt allan textann í auglýsingunum og að þær stríddu gegn ímynd flugstöðvarinnar. Um leið var því lýst yfir að fyrirtækið væri reiðubúið að endurgreiða okkur það sem við hefðum þegar greitt því.

Við erum þakklát fyrir það að ISAVIA skuli hafa séð sóma sinn í því að endurgreiða okkur vegna auglýsinganna sem fyrirtækið fjarlægði. Við erum einnig þakklát fyrir þann mikla velvilja sem við höfum fundið fyrir vegna þessa máls í íslensku samfélagi. Sú spurning stendur eftir hvers vegna okkur er meinað að vekja athygli á hvalaskoðun á Íslandi með auglýsingum og að hvetja erlenda ferðamenn, sem styðja í miklum meirihluta málstað okkar, til að borða annað en hvalkjöt?

Það er varla til mikils að ætlast að henni sé svarað.




Skoðun

Sjá meira


×