Skoðun

Kirkjan í óvissuferð

Jakob S. Jónsson skrifar
Ég fæ ekki lengur orða bundist vegna þess hve aumkunarlega og ókirkjulega yfirstjórn íslensku kirkjunnar hefur tekið á því máli er varðar afleiðingar kynferðisafbrota sr. Ólafs biskups Skúlasonar og eftirrekstur þess allan. Yfirstjórn kirkjunnar hefur með framgöngu sinni skapað sundrungu um hlutverk og eðli kirkjunnar sem ég sætti mig ekki við.

Frá barnsaldri hef ég lært af tveimur prestum í fjölskyldu minni, föður mínum prestvígðum, sr. Jóni Hnefli Aðalsteinssyni og þá ekki síður afa mínum, þeim velþekkta kennimanni sr. Jakobi Jónssyni, að kirkjan væri stofnun er stæði vörð um kærleiksboðskap Krists og staðfesti hann í athöfnum sínum, orðum og gerðum – messuhaldi, skírn, fermingu, giftingum og jarðarförum. Og þess í milli í sáluhjálp til safnaðarins og svo einfaldlega í því að vera til sem afl kærleikans í samfélaginu.

Þessir mætu þjónar kirkjunnar kenndu mér að þetta kirkjunnar starf væri aldrei sjálfgefið heldur stöðug barátta, sem snerist um það að ávallt lyfta á hæsta stall þeim gildum sem Kristur kenndi – jöfnuði milli manna, fyrirvaralausum kærleika til náungans, samúð með smælingjanum.

Nú ber aftur á móti svo við að biskupinn yfir Íslandi, sr. Karl Sigurbjörnsson, talar um að kirkjan hafi í sinni löngu sögu ekki „haft farveg" áður til að taka á málum eins og því sem varðar kynferðisafbrot forvera hans í embætti og sem hefur orðið tilefni heillar rannsóknarskýrslu. Þessu til staðfestingar kveðst sr. Karl hafa án árangurs reynt að koma á sáttum milli sr. Ólafs og þeirra kvenna sem hann kom ósæmilega fram við.

Ég skil þetta ekki. Ég fæ hreinlega ekki skilið hvernig hægt er yfir höfuð að hugsa um sættir milli kynferðisafbrotamanns og fórnarlamba hans. Hefði Kristur kallað á „sáttafund" í slíku máli? Mér er það til efs – sum mál eru þess eðlis að sættir, ætlaðar að vernda stöðu annars málsaðila, eru beinlínis óviðeigandi. Þarf einhvern „farveg" til að skilja það?

Kristur hefði sett fórnarlömbin í fókus og verið nokkuð röskur að. Samkvæmt þeim sem mér kenndu hefði Kristur með orðum sínum og æði tekið sér stöðu við hlið kvennanna og aldrei komið sér í þau ámátlegu vandræði að þurfa að biðja þær fyrirgefningar. Hvernig biður maður fórnarlamb kynferðisofbeldis fyrirgefningar?

Hefði Kristur sagst „skilja vonbrigði kvennanna" og síðan haldið áfram að sýsla við sitt með lærisveinunum í yfirstjórn safnaðarins? Ég held ekki. Ég hef ekki lært það þannig. Ég trúi því ekki.

Sr. Karl Sigurbjörnsson biskup er auðvitað ekki einhver einstaklingur eða embættismaður sem hægt er að varpa fyrir róða vegna þessa máls og þar með sé aftur hægt að horfa fram á veg. Þetta mál er miklu stærra en svo og varðar framkomu og ímynd kirkjunnar. Það er öll yfirstjórn kirkjunnar, sem er ábyrg, meðábyrg, meðvirk í þessu ömurlega máli.

Yfirstjórn kirkjunnar hefur með framgöngu sinni ákveðið að sýna það að kirkjan á Íslandi er ekki lengur hæf að þjóna Kristi, telur sig stikkfrí frá kærleiksboðskap hans og hefur þar með í raun lýst því yfir að kirkjan hafi engu hlutverki að gegna í nútímasamfélagi.

Íslenska kirkjan er þar með komin í einhvers konar óvissuferð þar sem vond öfl ráða för og Kristi og kærleiksboðskap hans er haldið í óviðeigandi gíslingu.




Skoðun

Sjá meira


×