Skoðun

Heimskautasvæðin í alþjóðlegri samræðu

Dr. Níels Einarsson skrifar
Norðurslóðir hafa fengið aukið vægi í alþjóðlegri umræðu undanfarin ár og tengist það ekki síst hnattrænum umhverfisbreytingum og áhrifum þeirra á svæðinu. Gera má ráð fyrir aukinni sókn í auðlindir og umhverfisgæði norðursvæða og aukinni skipaumferð því samfara en þau tækifæri sem þar gefast eru ekki án áhættu fyrir haf- og strandsvæði og þá ekki síður fyrir samfélög svæðisins, sem mörg hver byggja afkomu sína á nýtingu lifandi auðlinda hafsins. Jafnframt hefur hækkandi hitastig með bráðnun íss og styttri og mildari vetrum í för með sér tækifæri sem tengjast t.d. orkuöflun, landbúnaði og ferðamennsku.

Þær breytingar sem núverandi kynslóðir eru vitni að eru hnattrænar með svæðisbundnum afleiðingum og aðlögun en tengjast einnig frumkvæði fólks á svæðinu sem birtist í aukinni pólitískri sjálfstjórn og menningarlegri vakningu. Þessar breytingar eru margþættar, flóknar og samtvinnaðar og kalla á rannsóknir, vöktun og alþjóðlegt samstarf á öllum sviðum umhverfis og samfélagsþróunar þannig að sem best þekking liggi til grundvallar við ákvarðanir um framtíð norðurslóða.

Íslensk norðurslóðamálefni snúa að rannsóknum, vöktun, fræðslu og almennri umræðu sem tengjast sérstakri og sameiginlegri náttúru, samfélagsmenningu, atvinnuháttum og sögu norðurslóða í alþjóðlegu samhengi. Þrátt fyrir smæð þjóðarinnar má benda á það fjölþætta og hlutfallslega öfluga starf sem þegar er innt af hendi við stofnanir og verkefni hér á landi og sem vakið hefur alþjóðlega athygli og viðurkenningu. Íslendingar hafa þannig haslað sér völl í alþjóðlegu samstarfi norðurhjarans og hér eru reglulega haldnir fundir og ráðstefnur sem vekja enn frekari athygli á umsvifum, innlendri getu og reynslu til þátttöku á jafnræðisgrundvelli við sköpun þekkingar og samstarfs sem sameiginleg viðfangsefni og vandamál samfélaga svæðisins kalla á.

Um sumarsólstöður er haldin á Akureyri sjöunda ráðstefna Alþjóðlegra norðurslóðasamtaka félagsvísindamanna (IASSA). Ráðstefnuna skipulagði aðsetur samtakanna (sjá www.iassa.org) sem hefur undanfarin þrjú ár starfað undir forystu dr. Joan Nymand Larsen, forseta IASSA, innan veggja Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar. Aðalskipuleggjandi ráðstefnunnar er dr. Jón Haukur Ingimundarson og er hún haldin við Háskólann á Akureyri í samstarfi við Akureyrarbæ, Rannís, Arctic Portal, Rannsóknaþing norðursins og Ferðaskrifstofu Akureyrar. Ráðstefnan, sem hófst 22. júní, stendur í fjóra daga og í henni taka þátt á fimmta hundrað fræðimanna og sérfræðingar frá um 30 löndum. Þetta er stærsta vísindaráðstefna sem haldin hefur verið í heimskautabænum Akureyri.

Titill ráðstefnunnar er Sjónarhorn heimskautasvæðanna í alþjóðlegri samræðu og vísar sérstaklega til þess hversu samþætt þróun og framtíð arktískra samfélaga er hnattrænum umhverfisbreytingum og samskiptum á heimsvísu. Jafnframt er um að ræða ákveðin skilaboð um að ekki beri að líta á norðurslóðir sem óbyggðir og uppsprettu auðlinda, eða samfélög svæðisins sem óvirka þolendur breytinga, heldur séu íbúar norðursins virkir þátttakendur sem takist á við breytingar og geri þær þannig að afurð sköpunar og samfélagslegrar aðlögunarhæfni.




Skoðun

Sjá meira


×