Viðskipti innlent

Héldu áfram þrátt fyrir kreppu

Úlfar Steindórsson
Úlfar Steindórsson
„Menn kunna að meta það úti að við héldum áfram í hruninu. Þetta hefur ekki verið auðveldur tími,“ segir Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota-umboðsins á Íslandi. Hann og Kristján Þorbergsson, framkvæmdastjóri hjá Toyota, hafa keypt 60 prósenta hlut í umboðinu af Landsbankanum.

Útgerðarmaðurinn Magnús Kristinsson keypti umboðið árið 2005 fyrir sjö milljarða króna. Landsbankinn tók félagið yfir í kjölfar bankahrunsins og hefur fjárhagsleg endurskipulagning staðið yfir. Umboðið tapaði 450 milljónum árið 2009. Á sama tíma námu skuldir 6,7 milljörðum króna og var eigið féð neikvætt um rúmar 640 milljónir. Skuldir voru að mestu í erlendri mynt og átti að greiða 641 milljón króna á ári til 2014.

Við fjárhagslega endurskipulagningu var hluti skulda afskrifaður, öðrum breytt í hlutafé og afgangurinn skilinn eftir. Úlfar vill hvorki segja hversu háar skuldir hvíla nú á fyrirtækinu né hversu hátt kaupverðið er.

Toyota Motor Europe, dreifingaraðili Toyota í Evrópu, þurfti að samþykkja kaupendur og hefur um skeið legið fyrir að Úlfar væri líklegur kaupandi. Hann var starfandi stjórnarformaður umboðsins frá 1989 til 1992, starfandi stjórnarformaður árið 2004 og hefur verið forstjóri frá byrjun árs 2005.

- jab





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×