Skoðun

Ómakleg Orrahríð

Kristinn H. Gunnarsson skrifar
Í aðsendri grein vegur Magnús Orri Schram ómaklega að Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Segir hann nánast berum orðum að Geir beri sjálfur ábyrgð á því að þurfa að verja sig fyrir úreltum Landsdómi. Rökstyður Magnús Orri þau ummæli sín með því að vísa til þess að Geir stóð að því í desember 2008 að setja lög um rannsóknarnefnd Alþingis án þess að leggja þá til breytingar á lagaákvæðum um ráðherraábyrgð og Landsdóm. Með þessum orðum er ákærandinn Magnús Orri Schram að varpa ábyrgð á eigin gerðum yfir á herðar þolandans í málshöfðuninni.



Aðalatriðið, sem með réttu er gagnrýnt, er að stjórnmálamenn tókust á um það á pólitískum vettvangi hvaða stjórnmálamenn ætti að draga fyrir dómstól. Mat hvers og eins þingmanns verður óhjákvæmilega pólitískt og niðurstaðan eftir því. Alþingi með þingbundna ríkisstjórn er ógerningur með trúverðugum hætti að höfða mál gegn þeim sem gegnt hafa ráðherraembætti. Þetta þýðir ekki að ég sé að hvítþvo ráðherrana. Þvert á móti var ég gagnrýninn á störf ráðherra bæði þá og fyrr eins og lesa má í þingræðum mínum, til dæmis hinn 27. nóvember 2008.



Nauðsynlegt er að minna á að rannsóknarnefnd Alþingis var ætlað að leita sannleikans um aðdraganda og orsakir falls bankanna. Nefndinni var ekki falið dómsvald né heimild til að beita menn viðurlögum. Það var embætti sérstaks saksóknara sem annaðist sakamálarannsókn. Það var svo ákvörðun Alþingis ári seinna, í desember 2009, þegar skýrsla rannsóknarnefndarinnar lá fyrir, að skipa sérstaka þingmannanefnd til þess að meta hvort höfða ætti mál á hendur fyrrverandi ráðherrum fyrir Landsdómi. Þegar Magnús Orri Schram og aðrir alþingismenn höfðu ákveðið þetta áttu þeir að huga að lögunum um Landsdóm. Alþingi var í lófa lagið að breyta lögunum eða endurbæta eða ákveða að málaferlin yrðu fyrir almennum dómstólum. En það var ekki gert. Á því ber Magnús Orri ábyrgð og getur ekki vísað henni á Geir Haarde. Það er aldrei bót að pólitísku ákæruvaldi.




Skoðun

Skoðun

Al­einn í heiminum?

Lukka Sigurðardóttir,Katrín Harðardóttir ,Margrét Kristín Blöndal skrifar

Sjá meira


×